Danski bankinn Nykredit mun ekki greiða út arð fyrir fjár­hagsárið 2024 þar sem bankinn er í miðju yfir­töku­ferli á keppi­naut sínum Spar Nord.

Hlut­hafar Spar Nord hafa til 19. febrúar til að svara yfir­töku­til­boði danska bankans í allt hluta­fé félagsins.

Samþykki hlut­hafar til­boðið þarf Nykredit að leggja út 24,7 milljarða danskra króna eða tæp­lega 483 milljarða ís­lenskra króna fyrir útistandandi hluti í Spar Nord.

Af þeim sökum ákvað bankinn að fresta öllum arð­greiðslum.

Stjórn Spar Nord hefur lagt til við hlut­hafa að samþykkja til­boðið en Nykredit er fjórði stærsti banki Dan­merkur og Spar Nord sá sjötti stærsti.

Gangi yfir­takan eftir verður hinn sam­einaði banki þriðji stærsti banki Dan­merkur.

„Árangurinn fyrir 2024 er sá besti í sögu Nykredit“

Þar sem engin arð­greiðsla verður í ár ákvað Nykredit að koma til móts við við­skipta­vini í staðinn og hækka svo­kallaðar við­skipta­krónur, sem er ár­legur af­sláttur af lántöku­kostnaði hjá Nykredit Tota­l­kredit.

Af­slátturinn fyrir ein­stak­linga hækkar úr 0,20 pró­sentu­stigum í 0,25 pró­sentu­stig sem jafn­gildir 500 dönskum krónum auka­lega í af­slátt hverja milljón króna í eftir­stöðvum láns.

Nykredit ákvað einnig að framlengja viðskiptakrónu-kerfið en afslættirnir áttu upphaflega að gilda til loka árs 2027 en þeim hefur verið framlengt til loka árs 2028.

Í til­kynningunni kom einnig fram að af­komu­spá Nykredit fyrir árið 2024 hafi verið áréttuð.

Fyrri spá gerði ráð fyrir hagnaði upp á 11,0-11,75 milljarða danskra króna, en nú segir að af­koman verði 11,75 milljarðar danskra króna eftir skatta.

Sam­svarar það um 228 milljarða króna hagnaði fyrir árið, sem verður besti árangur fyrir­tækisins til þessa.

„Árangurinn fyrir 2024 er sá besti í sögu Nykredit-sam­steypunnar, sem er í eigu félags. Þetta er fjórða árið í röð sem við sláum met, og það er mjög ánægju­legt. Þessi fram­vinda gerir okkur kleift að deila árangrinum áfram með við­skipta­vinum í formi beins ávinnings,“ sagði Michael Rasmus­sen, for­stjóri Nykredit, í til­kynningunni.