Danski bankinn Nykredit mun ekki greiða út arð fyrir fjárhagsárið 2024 þar sem bankinn er í miðju yfirtökuferli á keppinaut sínum Spar Nord.
Hluthafar Spar Nord hafa til 19. febrúar til að svara yfirtökutilboði danska bankans í allt hlutafé félagsins.
Samþykki hluthafar tilboðið þarf Nykredit að leggja út 24,7 milljarða danskra króna eða tæplega 483 milljarða íslenskra króna fyrir útistandandi hluti í Spar Nord.
Af þeim sökum ákvað bankinn að fresta öllum arðgreiðslum.
Stjórn Spar Nord hefur lagt til við hluthafa að samþykkja tilboðið en Nykredit er fjórði stærsti banki Danmerkur og Spar Nord sá sjötti stærsti.
Gangi yfirtakan eftir verður hinn sameinaði banki þriðji stærsti banki Danmerkur.
„Árangurinn fyrir 2024 er sá besti í sögu Nykredit“
Þar sem engin arðgreiðsla verður í ár ákvað Nykredit að koma til móts við viðskiptavini í staðinn og hækka svokallaðar viðskiptakrónur, sem er árlegur afsláttur af lántökukostnaði hjá Nykredit Totalkredit.
Afslátturinn fyrir einstaklinga hækkar úr 0,20 prósentustigum í 0,25 prósentustig sem jafngildir 500 dönskum krónum aukalega í afslátt hverja milljón króna í eftirstöðvum láns.
Nykredit ákvað einnig að framlengja viðskiptakrónu-kerfið en afslættirnir áttu upphaflega að gilda til loka árs 2027 en þeim hefur verið framlengt til loka árs 2028.
Í tilkynningunni kom einnig fram að afkomuspá Nykredit fyrir árið 2024 hafi verið áréttuð.
Fyrri spá gerði ráð fyrir hagnaði upp á 11,0-11,75 milljarða danskra króna, en nú segir að afkoman verði 11,75 milljarðar danskra króna eftir skatta.
Samsvarar það um 228 milljarða króna hagnaði fyrir árið, sem verður besti árangur fyrirtækisins til þessa.
„Árangurinn fyrir 2024 er sá besti í sögu Nykredit-samsteypunnar, sem er í eigu félags. Þetta er fjórða árið í röð sem við sláum met, og það er mjög ánægjulegt. Þessi framvinda gerir okkur kleift að deila árangrinum áfram með viðskiptavinum í formi beins ávinnings,“ sagði Michael Rasmussen, forstjóri Nykredit, í tilkynningunni.