Vaxa var stofnað árið 2017 og byrjaði að rækta salat í gróðrarstöð sinni í Grafarholti í Reykjavík í lok árs 2018. Fyrsta uppskeran var í byrjun árs 2019, en auk þess að vera með ræktun á Íslandi er Vaxa með starfsemi í bænum Kumla, skammt frá Örebro í Svíþjóð.

„Fyrir rúmum tveimur árum síðan byrjuðum við að undirbúa sókn Vaxa á Norðurlöndunum. Við byggðum upp öflugt viðskiptaþróunarteymi hér á Íslandi og fórum í mikla vinnu við að greina markaðinn og skoða húsnæði í Skandinavíu. Við enduðum á því að finna mjög áhugavert húsnæði í Kumla og má segja að húsnæðið sé í hjarta Skandinavíu, mitt á milli Stokkhólms og Osló,“ útskýrir Andri Björn Gunnarsson, stofnandi Vaxa.

Um er að ræða húsnæði á einni hæð, fjörutíu metra undir yfirborði jarðar, þar sem eitt sinn var náma. Síðustu tvo áratugina hefur náman að hluta til verið stafrækt skjalageymsla.

„Húsnæðið er 400 þúsund fermetrar og er því mjög skalanlegt. Það er jafnframt ákveðin fegurð í því að við þurfum ekki að byggja nýja byggingu til að stækka við okkur, náman er sjálfberandi og er í raun eins og 400 þúsund fermetra herbergi. Þegar við stækkum við okkur er það í raun eins og að lengja framleiðslulínuna.“

Mikill vöxtur hefur verið á framleiðslu Vaxa í Svíþjóð, en félagið seldi fyrstu vörurnar í verslanir í október í fyrra. Andri segir félagið hafa mikið rými til að stækka í Svíþjóð á næstu árum og að haldið verði áfram í uppbyggingu eins hratt og mögulegt er. Það hyggst einnig stækka framleiðslugetuna á Íslandi, en framleiðslan hefur til þessa verið staðsett í Grafarholti.

„Við hófum uppbyggingu á ræktuninni um mitt síðasta ár og kláruðum nýverið næsta áfanga stöðvarinnar. Fyrir vikið erum við með tvisvar sinnum stærri framleiðslu í Svíþjóð en á Íslandi, fimmtán manna teymi og var Vaxa nýverið valið nýsköpunarfyrirtæki ársins í Kumla.

Við stefnum á að halda áfram að stækka framleiðslugetuna í Svíþjóð á næstu árum. Staðsetningin býður líka upp á þann möguleika að þjónusta fleiri lönd en bara Svíþjóð, enda er gróðrarstöðin einungis nokkrum klukkutímum frá Noregi og Danmörku.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.