Hluta­bréfa­verð Haga hefur hækkað um tæp­lega 11% í vikunni en Hagar greindu frá því fyrir opnun markaða í gær að fé­lagið hefði keypt allt hluta­fé fær­eyska fé­lagsins SMS, sem rekur m.a. átta Bónus lág­vöru­verðs­verslanir.

Um 362 milljón króna velta hefur verið með bréf Haga í morgun og hefur gengið hækkað um 5% það sem af er degi.

Saman­lögð velta eftir að kaupin voru til­kynnt er því orðin meiri en hálfur milljarður en um 220 milljón króna velta var með bréf Haga í gær.

Gengi fé­lagsins stendur í 93 krónum þegar þetta er skrifað og hefur aldrei verið hærra en þegar það hóf vikuna í 84 krónum.

Hagar, móður­fé­lag Bónuss, Hag­kaups og Olís, undir­ritaði í vikunni skil­yrt sam­komu­lag um kaup og sölu á öllu hluta­fé í SMS við eig­endur verslunar­fé­lagsins P/F SMS í Fær­eyjum.

Kaup­verð (e. enterprise valu­e) í fyrir­huguðum við­skiptum er á­ætlað um 467 milljónir danskra króna eða um 9,4 milljarðar ís­lenskra króna. Kaup­verðið er sagt byggja m.a. á rekstrar­á­ætlun ársins 2024 og fast­eigna­safni fé­lagsins.

Fjár­mögnun við­skiptanna er tryggð, en gert er ráð fyrir að Hagar greiði um 50 milljónir danskra króna af kaup­verðinu með hluta­bréfum í Högum og yfir­taki jafn­framt skuldir SMS sem er á­ætlað að verði 150-160 milljónir danskra króna við frá­gang við­skiptanna.

Heildar­tekjur SMS fyrir árið 2023 námu tæp­lega 700 milljónum danskra króna eða um 14 milljörðum ís­lenskra króna. Hagnaður fé­lagsins fyrir fjár­magns­liði og af­skriftir (EBITDA) var um 56 milljónir danskra króna eða tæp­lega 1,1 milljarðar ís­lenskra króna.