Leikjafyrirtækið Solid Clouds hefur fengið undirrituð áskriftarloforð frá hæfum fjárfestum í nýtt hlutafé að andvirði 300 milljónir króna, að því er kemur fram í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar.
Alls bárust áskriftir í 200.607.335 hluti á genginu 1,5 krónur á hlut. Félagið tilkynnti í lok apríl að það hefði ákveðið að lækka útboðsgengið í fjármögnunarlotunni úr 2,25 krónum í 1,5 krónur á hlut.
Ofangreind hlutafjáraukning er háð samþykki hluthafafundar sem boðaður hefur verið 30. maí næstkomandi.
Leikjafyrirtækið, sem er skráð á First North-markaðinn, lauk fyrr í ár útgáfu breytanlegra skuldabréfa að fjárhæð 175 milljónir króna. Skuldabréfin eru á gjalddaga 15. september nk. og bera 15% fasta vexti og hafa breytirétt í hluti í félaginu miðað við gengið 1 króna fyrir hvern hlut nafnverðs.
Markmið fjármögnunarinnar er að styrkja fjárhagsstöðu félagsins og styðja við áframhaldandi vöxt og þróun leiksins Starborne: Frontiers.
Verðbréfamiðlun Íslandsbanka annaðist ráðgjöf um ofangreinda sölu hlutafjár félagsins og Lagahvoll veitti lögfræðilega ráðgjöf.