Íslenski tölvuleikjaframleiðandinn Solid Clouds hefur gefið út PC-útgáfu af leiknum Starborne Frontiers en félagið gaf nýlega leikinn út í snjalltækjaformi. Í tilkynningu segir að PC-útgáfa leiksins muni auka sýnileika og markaðshæfi Starborne Frontiers.
PC-útgáfa af leiknum mun gera Solid Clouds kleift að setja leikinn á Steam, stærstu leikjaefnisveitu heims. Nýja útgáfan mun einnig styðja við vöxt samfélags spilara Starborne Frontiers sem heldur til á Discord-spjallforritinu.
„Teymið er stolt að hafa náð þessu markmiði en mikil vinna var lögð í að ná athygli spilara í byrjun leiksins. Við sjáum til dæmis að helmingur þeirra sem kaupir hluti í leiknum gerir það á fyrstu 20 mínútunum,“ segir Stefán Gunnarsson, forstjóri Solid Clouds.
Fyrirtækið segir að sá mælikvarði sem Solid Clouds horfir mest á varðandi velgengni leiksins sé í hversu miklum mæli og hversu hratt auglýsingakostnaður skilar sér í tekjum. Félagið hafi nú þegar náð einu meginmarkmiði sínu sem er að fá 30% af auglýsingakostnaði til baka í formi tekna á einni viku.
„Við gerum ráð fyrir að miðað við núverandi þróunarstöðu leiksins muni auglýsingakostnaður skila sér til baka í tekjum á innan við ári. Teymið vinnur nú áfram að því að besta leik- og tekjukerfi leiksins svo að markmið okkar um að auglýsingakostnaður skili sér um tvöfalt til baka í tekjum á einu ári náist,“ bætir Stefán við.