Tölvuleikjafyrirtækið Solid Clouds hf., sem skráð er á First North-markaðinn á Íslandi, hefur lækkað útboðsgengi í yfirstandandi fjármögnunarlotu úr 2,25 krónum á hlut niður í 1,5 krónur á hlut. Dagslokagengi Solid Clouds var 1 króna í gær.

Samkvæmt tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar eru viðræður Verðbréfamiðlunar Íslandsbanka við hæfa fjárfesta nú á lokametrunum.

Félagið stefnir að því að tryggja sér að lágmarki 225 milljónir króna frá hæfum fjárfestum í hlutafjáraukningunni, með möguleika á að hækka þá fjárhæð í allt að 350 milljónir króna.

Tilgangurinn með fjármögnuninni er að styrkja fjárhagsstöðu félagsins og styðja við áframhaldandi þróun og markaðssetningu á tölvuleiknum Starborne: Frontiers, sem er í þróun hjá félaginu.

Verðbréfamiðlun Íslandsbanka sér um innheimtu áskriftarloforða.

Solid Clouds sótti 175 milljónir króna í byrjun árs með útgáfu á breytanlegum skuldabréfum þar sem hluthafar félagsins skráðu sig fyrir öllum boðnum skuldabréfum. Um var að ræða breytanleg skuldabréf með föstum 15% vöxtum, með gjalddaga í september 2025.

Skuldabréfin veita eigendum þeirra rétt til að breyta kröfum sínum í hlutafé í félaginu á genginu 1 króna á hlut, að skilyrðum uppfylltum. Auk þess mæla bréfin fyrir um skyldubreytingu í hlutafé við ákveðnar aðstæður. Skuldabréfaútgáfan var samþykkt á hluthafafundi þann 10. janúar síðastliðinn.

Vonast til að tryggja rekstur út árið

Samhliða þeirri fjármögnun samþykktu hluthafar einnig heimild til hækkunar hlutafjár um allt að 300 milljónir hluta vegna viðræðna við hæfa fjárfesta og að auki heimild til að hækka hlutafé um allt að 100 milljónir hluta til að bjóða núverandi hluthöfum að taka þátt í nýju hlutafjárútboði.

Í tengslum við fjármögnunarviðræðurnar hefur stjórn félagsins lýst því yfir að væntingar standi til þess að með fyrrgreindri fjármögnun verði rekstur félagsins tryggður út árið 2025. Enn fremur gera stjórn og framkvæmdastjórn sér vonir um að félagið fari að skila jákvæðu sjóðstreymi á seinni hluta ársins 2026.

Solid Clouds hefur undanfarin ár unnið að þróun Starborne: Frontiers, nýjustu afurð sinni í Starborne-leikjaheiminum. Félagið hefur áður hlotið styrki úr Tækniþróunarsjóði og aðra opinbera styrki til að styðja við vöxt og nýsköpun í leikjaiðnaði á Íslandi.