Solid Clouds hefur ákveðið að ráðast í lokað hlutafjárútboð þar sem tölvuleikjafyrirtækið stefnir að því að sækja allt að 400 milljónir króna en áskilur sér rétt að hækka upphæðina upp í 600 milljónir. Þetta kemur fram í uppgjörstilkynningu sem félagið sendi frá sér í gær.
Arion Banki sér um útboðið sem hófst á miðvikudaginn síðasta og lýkur á miðnætti 7. september næstkomandi. Auglýst er eftir áskrift hæfra fjárfesta í útboðinu.
Útboðsgengið er 7 krónur en Solid Clouds sótti sér 725 milljónir króna í frumútboði í lok júní 2021 á útboðsgenginu 12,5 krónur.
Eftir útboðið var markaðsverð fyrirtækisins um 2,3 milljarðar króna. Gengi Solid Clouds hefur verið á bilinu 6 til 7,25 krónur síðastliðinn mánuð.
Félagið, sem er skráð á First North-markaðinn, hefur boðað til hluthafafundar þann 8. september þar sem tillaga um hækkun hlutfjár í tengslum við útboðið verður lögð fram.
Fjármagna markaðsherferð
Í frumútboðinu bárust alls tilboð að andvirði 2,8 milljarða króna frá rétt tæpum 2.700 tilvonandi fjárfestum en 32% hlutur var boðinn út, að meðtaldri stækkunarheimild sem var fullnýtt í ljósi mikillar eftirspurnar.
Starborne Frontiers, nýi tölvuleikur Solid Clouds, er aðgengilegur öllum í snjallforritaverslun Apple og Google. Samkvæmt kauphallartilkynningu hafa 60 þúsund einstaklingar náð í leikinn.
Stefán Gunnarsson forstjóri Solid Clouds segir að hlutafjáraukningunni sem hófst í vikunni sé ætlað að fjármagna markaðsherferð og rekstrarkostnað.
Minna tap í ár en í fyrra
Samkvæmt uppgjöri fyrirtækisins fyrir fyrri hluta árs nam tap félagsins fyrir skatta 62,6 milljónum í samanburði við 35,5 milljóna tap árið áður.
Tekjur af tölvuleikjastarfseminni námu 9,9 milljónum króna sem er 47,7% hækkun frá árinu áður.
Rannsóknar og þróunarkostnaður var 174,5 milljónir sem er 3% minna en á tímabilinu í fyrra en félagið á von á 128,6 milljóna skattaafslætti af rannsóknar og þróunarkostnaði.
Eigið fé félagsins var 118,5 við lok tímabilsins.