Tölvuleikjafyrirtækið Solid Clouds, sem er skráð á First North-markaðinn, stefnir að því að ljúka viðbótarfjármögnun í ár til að styðja við reksturinn og markaðsmál félagsins á komandi árum. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Í fjárfestakynningu kemur fram að Solid Clouds meti fjárþörf til næstu 18-24 mánaða á 700-800 milljónir króna.

Félagið vinnur nú að því að fá valda fjárfesta til að taka þátt í fjármögnuninni. Einnig er gert ráð fyrir að ákveðnir stjórnendur og stjórnarmenn í félaginu taki þátt í komandi fjármögnunarlotu.

Solid Clouds sótti í febrúar síðastliðnum 295 milljónum króna, þar af 75 milljónir í almennu hlutafjárútboði. Útgáfuverðið í hlutafjáraukningunni var 2,0 krónur á hlut.

Félagið gerir ráð fyrir að tekjur þess muni aukast töluvert á næstu tveimur árum, m.a. vegna bættrar arðsemi auglýsingafjárfestingar (ROAS), aukinna útgjalda til auglýsinga og dreifingar tölvuleikja sinna á Steam.

Á meðfylgjandi mynd má sjá að félagið gerir ráð fyrir sjóðstreymi þess verði jákvætt í byrjun árs 2026.

Mynd tekin úr fjárfestakynningu félagsins.

Solid Clouds gaf út PC-útgáfu af leiknum Starborne Frontiers í apríl síðastliðnum en félagið hafði þegar gefið leikinn út í snjalltækjaformi.

Í ofangreindri kynningu kemur fram að bæði tekjur Starborne Frontier og virkir daglegir notendur hafi aukist talsvert frá útgáfu.

Tekjur af Starborne Frontiers og fjöldi virkra daglegra notenda.