Fyrirkomulag á söluferli Perlunnar var samþykkt á fundi borgarráðs í dag og er áætlað að hafa söluferlið í tveimur þrepum.
Á fyrra þrepi verður auglýst eftir áhugasömum kaupendum og á síðara þrepi verður þeim sem uppfylla þær kröfur sem gerðar eru í þrepi eitt, boðið að leggja fram kauptilboð.
Heimilað var í haust að hefja söluferli á eign Reykjavíkurborgar, Perlunni, auk tveggja vatnstanka.
Auglýst lágmarksverð verður þrír og hálfur milljarður króna og í gögnum áhugasamra kaupenda þurfa meðal annars að koma fram upplýsingar um fyrirhuguð áform varðandi eignina. Gert er ráð fyrir að auglýsa nú í júní.
Að minnsta kosti þremur kvöðum verður þinglýst á eignina meðal annars sú kvöð að Reykjavíkurborg hafi forkaupsrétt. Þá er kvöð um að húsnæðið, bílastæði og lóð, verði opið almenningi endurgjaldslaust eða gegn hóflegri gjaldtöku.
Þriðja kvöðin er um að grunnskólabörn í skólum Reykjavíkur geti heimsótt safnið sem verður rekið í húsinu, endurgjaldslaust, tvisvar sinnum á skólagöngu í fyrsta til tíunda bekk.
Fasteignamat Toppstöðvarinnar um 775 milljónir
Samhliða þessu heimilaði borgarráð að hefja söluferli á Toppstöðinni, Rafstöðvarvegi 4 í Elliðaárdal.
Samkvæmt fréttatilkynningu á vef borgarinnar verður haldin samkeppni þar sem fleiri þættir en kaupverð munu hafa áhrif við mat á tilboðum.
Árið 2008 afsalaði Landsvirkjun til Reykjavíkurborgar lóð númer fjögur við Rafstöðvarveg, ásamt varastöð Landsvirkjunar, Toppstöðinni. Toppstöðin er tæpir 6.500 fermetrar að stærð og er gildandi fasteignamat tæpar 775 milljónir króna.
„Með hliðsjón af sögulegu mikilvægi hússins og staðsetningu verður ekki um beina sölu að ræða heldur samkeppni þar sem kaupverð mun hafa 75% vægi. Að öðru leyti verða umsóknir metnar eftir þáttum eins og hugmyndafræði, tengslum við Elliðaárdalinn, hönnun og samráði við nærumhverfi auk þess sem horft verður til fyrirhugaðrar starfsemi í húsnæðinu. Þá mun mat á kauptilboðum einnig byggja á hugmyndum bjóðenda um sjálfbærni og kolefnisfótspor,” segir á vef borgarinnar.
Selja 125 bílastæði í Hörpu
Borgarráð samþykkti einnig að setja 125 stæði í bílastæðahúsi tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu við Austurhöfnina í söluferli.
Reykjavíkurborg er eigandi að 125 af 420 stæðum í bílastæðakjallara Hörpu.
Í skýrslu starfshóps um betri rekstur og afkomu bílastæðahúsa Bílastæðasjóðs má meðal annars finna tillögu um mögulega sölu á einstaka bílahúsum, þar með talið bílastæðum í Hörpu, segir á vef borgarinnar.
Brunabótamat stæðanna 125 fyrir árið 2024 er einn milljarður og tæpar 158 milljónir króna. Gert er ráð fyrir að þau verði auglýst nú í júní.