Árið 2024 var það slakasta í meira en aldarfjórðung hjá matvælafyrirtækinu Nestlé hvað söluvöxt varðar en sala hjá svissneska matvælafyrirtækinu jókst aðeins um 2,2% árið 2024, miðað við 7,2% vöxt árið á undan.
Breyttar neysluvenjur meðal viðskiptavina eru sagðar hafa átt mikinn þátt í þróuninni en nýjustu tölur undirstrika þær áskoranir sem forstjóri Nestlé, Laurent Freixe, stendur frammi fyrir.
Nestlé leitast nú við að efla auglýsinga- og markaðsherferðir hjá fyrirtækinu í von um að snúa sölutölum við eftir nokkurra ára verðbólgu.
Hlutabréf fyrirtækisins hækkuðu þó um 6% í morgun þar sem sérfræðingar bentu á að þrátt fyrir erfitt ástand þá hafi uppgjörið verið betra en búist var við. Upphaflega var aðeins gert ráð fyrir 2,1% söluaukningu.