Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir að stéttarfélagið hafi ákveðið að bíða með að tilkynna um verkfall hjá starfsfólki í ræstingu, öryggisgæslu og á hótelum þar til niðurstöður atkvæðagreiðslu SA um verkbann liggja fyrir.

„Ég tók ákvörðun um að bíða með þess­ar boðanir þar til niðurstaða var kom­in frá SA um verk­bönn,“ hefur mbl.is eftir Sól­veigu Önnu.

SA tilkynntu fyrir skömmu að umrædd verkföll muni ekki koma til framkvæmda þann 28. febrúar eins og stóð til þar sem Efling hefur ekki skilað inn tilkynningu til SA og ríkissáttasemjara með sjö sólarhringa fyrirvara líkt og lög kveða á um.

Atkvæðagreiðslu SA um verkbann á félagsmenn Eflingar lýkur kl. 16 í dag. Kosið er um ótímabundið verkbann sem myndi hefjast á hádegi á fimmtudaginn 2. mars.

Sólveig Anna segir að samninganefnd Eflingar ætli að funda í kvöld um stöðuna eftir að niðurstaða atkvæðagreiðslunnar liggi fyrir.

Ljóst er þó að greiða þurfi atkvæði á ný um framangreinda verkfallsboðun ef tilkynna á um hana til Ríkissáttasemjara og SA.