Kaldalón og Hafnagarður ehf. hafa náð samkomulagi um að lokagreiðsla Kaldalóns, vegna kaupa á öllu hlutafé Hafnagarðs, verður greidd með peningum í stað nýs útgefns hlutafjár í Kaldalóni.
Hafnagarður ehf. var eigandi Köllunarklettsvegar 1 í Reykjavík, betur þekkt sem gamla húsnæði Kassagerðar Reykjavíkur.
Í ágúst 2022 keypti Kaldalón allt hlutafé Hafnagarða á 4 milljarða. Samkvæmt kaupsamningi greiddi félagið 1,5 milljarða með nýju hlutafé við undirritun og síðan 2 milljarða með peningum eða yfirtöku lána þann 1. september 2023.
Lokagreiðsla átti að greiðast eigi síðar en 1. október en um var að ræða skilyrta greiðslu að fjárhæð 400 milljónir króna með nýju hlutafé útgefnu af Kaldalóni.
Samkvæmt kauphallartilkynningu í morgun hafa aðilar nú undirritað viðauka við kaupsamning sem felur það í sér að lokagreiðsla vegna kaupa á Hafnagarði ehf. verði greidd með peningum í stað nýs hlutafjár í Kaldalóni.
Uppgjörsdagur var 16. september og er Kaldalón því 100% eigandi hlutafjár í Hafnagarði ehf. í samræmi við kaupsamning.
„Það er ánægjulegt að kaupum á gömlu Kassagerðinni sé nú lokið. Í fasteigninni starfar nú fjöldi fyrirtækja með blómlegan og fjölbreyttan rekstur. Viðtökur viðskiptavina hafa verið mjög góðar.
Þá náðist samkomulag að frumkvæði Kaldalóns að lokagreiðsla yrði greidd með peningum í stað greiðslu með nýju útgefnu hlutafé. Það er í samræmi við kynntar áherslur Kaldalóns að hlutafé sem gagngjald í viðskiptum þurfi að endurspegla bókfært virði Kaldalóns,” segir Jón Þór Gunnarsson forstjóri.