Kalda­lón og Hafna­garður ehf. hafa náð sam­komu­lagi um að loka­greiðsla Kalda­lóns, vegna kaupa á öllu hluta­fé Hafna­garðs, verður greidd með peningum í stað nýs út­gefns hluta­fjár í Kalda­lóni.

Hafna­garður ehf. var eig­andi Köllunar­kletts­vegar 1 í Reykja­vík, betur þekkt sem gamla hús­næði Kassa­gerðar Reykja­víkur.

Í ágúst 2022 keypti Kalda­lón allt hluta­fé Hafna­garða á 4 milljarða. Sam­kvæmt kaup­samningi greiddi fé­lagið 1,5 milljarða með nýju hluta­fé við undir­ritun og síðan 2 milljarða með peningum eða yfir­töku lána þann 1. septem­ber 2023.

Loka­greiðsla átti að greiðast eigi síðar en 1. októ­ber en um var að ræða skil­yrta greiðslu að fjár­hæð 400 milljónir króna með nýju hluta­fé út­gefnu af Kalda­lóni.

Sam­kvæmt kaup­hallar­til­kynningu í morgun hafa aðilar nú undir­ritað við­auka við kaup­samning sem felur það í sér að loka­greiðsla vegna kaupa á Hafna­garði ehf. verði greidd með peningum í stað nýs hluta­fjár í Kalda­lóni.

Upp­gjörs­dagur var 16. septem­ber og er Kalda­lón því 100% eig­andi hluta­fjár í Hafna­garði ehf. í sam­ræmi við kaup­samning.

„Það er á­nægju­legt að kaupum á gömlu Kassa­gerðinni sé nú lokið. Í fast­eigninni starfar nú fjöldi fyrir­tækja með blóm­legan og fjöl­breyttan rekstur. Við­tökur við­skipta­vina hafa verið mjög góðar.

Þá náðist sam­komu­lag að frum­kvæði Kalda­lóns að loka­greiðsla yrði greidd með peningum í stað greiðslu með nýju út­gefnu hluta­fé. Það er í sam­ræmi við kynntar á­herslur Kalda­lóns að hluta­fé sem gagn­gjald í við­skiptum þurfi að endur­spegla bók­fært virði Kalda­lóns,” segir Jón Þór Gunnars­son for­stjóri.