Starfsemi Köru Connect skiptist í tvennt en annars vegar er um að ræða örugga og vottaða vinnustöð fyrir sérfræðinga í heilbrigðis- og velferðarþjónustu.
Hins vegar er um að ræða sérsniðið velferðartorg fyrir fyrirtæki. Í því felst að valið er með starfsfólki fyrirtækis hvaða stuðningur passar við þarfir fyrirtækisins, samanber tungumál, staðsetningu og sérfræðikunnáttu. Kara er með aðgang að þúsundum sérfræðinga sem eru með yfir 60 tegundir af sérfræðiþekkingu á fleiri en 30 tungumálum.
Starfsmenn Köru tryggja bakgrunn sérfræðinganna og fyrirtækið sem býður velferðartorg greiðir svo fyrir ákveðinn fjölda tíma sem starfsmenn geta nýtt sér.
„Þetta gengur mjög vel og ég er afar stolt af þessum félögum sem sjá hversu mikil þörf er á þessu. Staðreyndin er sú að framleiðni er á leiðinni niður vegna aukningar á geð- og kvíðavanda,“ segir Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, framkvæmdastjóri og stofnandi Köru Connect.
Fyrirtækin séu framsýn og átti sig á að þau þurfi að leggja sitt af mörkum í geðhjálp og velferð. Þetta sé góð leið til að tryggja aðgengi og styðja starfsmenn við breytingar eða að hefja bata.
„Sumar áskoranir eru eðlilegar og valda kvíða og stundum þarf starfsmaðurinn bara einn tíma hjá svefnráðgjafa eða sálfræðingi, en aukningin er því miður mikil í hreinum og klárum þunglyndiseinkennum sem hafa áhrif á líf og líkamlega getu. Þá þarf að tryggja að það sé einfalt að leita að hjálp og það sé hægt í trúnaði, að starfsmenn geti leitað sér aðstoðar án þess að tala við yfirmann sinn. Að sama skapi má segja að aðgengi að velferðartorgi styðji stjórnendur í að bjóða hjálp þegar það er sýnilega eitt hvað sem bjátar á. Um 30% tíma stjórnenda fara núna í að sinna svona persónulegum áskorunum starfsmanna í teymum.“
Í upphafi var stefnan sett á að gera sambærilegt torg fyrir skólabörn, þannig að leikskólar og grunnskólar óháð stærð og staðsetningu gætu til að mynda fengið talmeinafræðing, sálfræðing eða iðjuþjálfa, sérfræðinga frá ríki, sveitarfélögum og frá stofum.
„Börnin eru öll með ólíkar þarfir og um 25% þeirra þurfa stuðning á einum tíma eða öðrum og það reynist mjög erfitt að styðja þau með réttu sérfræðingunum. Þjónustan var greidd af ólíkum aðilum og foreldrar alltaf með vandamál barna sinna í gjörgæslu.“
„Við vorum hreinlega á röngum tíma á ferðinni með þessa hugmynd í upphafi, því miður. Kannski kemur að því að við getum stutt við skólana og reyndar er Kópavogur að prófa þessa hugmynd með okkur núna. Við fórum svo í að byggja mjög öfluga og örugga vinnustöð fyrir sérfræðinga, en við vorum líklega of snemma þar líka, sérfræðingarnir byrjuðu ekki að pæla í fjarþjálfun fyrr en í Covid. Þá áttuðu þeir sig á tímasparnaðinum sem hugbúnaðurinn veitti og kostina við aðgengi að þeirra sérfræðiþekkingu. En í Covid fórum við að sjá að þetta sama vandamál og er í skólunum, sama flækju stig, var mætt á vinnustaðinn og áhrifin á fólkið voru miklu meiri en maður hafði trúað.“
Markvissar hindranir
Þegar Kara Connect leit fyrst dagsins ljós fyrir áratug var hugsunin að sinna fjarheilbrigðisþjónustu fyrir hið opinbera. Fyrstu hindranirnar birtust aftur á móti þegar þau byrjuðu að sinna börnum úti á landi.
„Allt í einu bannaði landlæknir okkur að sinna börnum af því að þau voru ekki með rafræn skilríki og þetta er bara búinn að vera einhver svona grínleikur í mjög langan tíma,“ segir Þorbjörg Helga en hún hefur ítrekað kvartað undan framkomu hins opinbera undanfarin ár.
Fyrirtækið kærði til að mynda innkaup landlæknis af Origo árið 2022 vegna þróunar Heklu heilbrigðisnets og Heilsuveru og komst kærunefnd útboðsmála að þeirri niðurstöðu að innkaupin hefðu verið ólögmæt. Landlæknisembættið svaraði með því að stefna Köru Connect fyrir dómi.
Hið opinbera hafi markvisst hindrað innkomu fyrirtækja sem vilja koma inn með lausnir. Fyrirséð er að breytingar í framtíðinni kalli á breytta nálgun.
„Það eru mjög margir að reyna að smyrja hjólin og bæta heilbrigðisumhverfið okkar með nýjum hugmyndum og það er svo ótrúlega súrt að koma að lokuðum dyrum. Þú ert raunverulega að reyna þitt besta að breyta heiminum og ef eitthvað er þá eru þessi heilbrigðisfyrirtæki að rukka of lítið og þau lifa ekki af.“
Dæmi eru um að erlendir aðilar hafi veigrað sér við að hefja starfsemi hér á landi þar sem allt er lokað og læst, auk þess sem einhver fyrirtæki hafa verið harðlega gagnrýnd fyrir að bjóða upp á lausnir í forvarnaskyni.
„Ég geri mér alveg grein fyrir því að út af því að ég hef verið að taka þessa slagi þá fæ ég örugglega aldrei að vinna með þessum kerfum. En ég og frábær stjórn félagsins ákváðum að það þyrfti einhver að keyra áfram og segja þessa hluti til að aðrir gætu komist á þann stað. Vonandi er maður að gera eitthvað í þá átt.“
Stjórnvöld hafi brugðist
Lítið sem ekkert hafi áunnist á undanförnum árum en Þorbjörg Helga bendir á að frá því að Kara Connect var stofnað hafi fimm ríkisstjórnir verið við stjórnvölinn og allar hafi þær haft þessi mál um fjarheilbrigðisþjónustu og tækni í heilbrigðiskerfinu í stefnumálaskrá sinni.
Þá blasi við hindranir sem auðvelt væri að leysa. Þar má til að mynda nefna að gagnagrunnar íslenska heilbrigðiskerfisins eru ekki tengdir saman. Auk þess séu ýmsar tæknilegar hindranir til staðar og engin skýr svör gefin um hvers vegna Kara Connect megi ekki koma að borðinu.
Úr því verði að bæta sem fyrst en hingað til hafi enginn ráðherra tekið ákvörðun og þess í stað hefur málum sífellt verið beint í ýmsar nefndir.
„Persónulega finnst mér stjórnvöld hafa brugðist í öllum þessum heilsutæknigeira. Það hefði þurft að vera með skýrar línur um að bjóða þeim til leiks og opna eitthvað „testground“, eins og Danirnir eru búnir að gera í tuttugu ár þar sem spítalarnir eru með opin hús. Það verður að fá ákveðna aðila að borðinu til þess að verkefnið haldi áfram.“
Í því samhengi megi til að mynda horfa sérstaklega til Svíþjóðar, sem hafi tekið risa stökk fram á við. Í dag séu til staðar mörg einkarekin kerfi sem styðja við hið opinbera og fjárfesta Svíar gríðarlega mikið í nýsköpun. Þá sé mikilvægt að leyfa fyrirtækjum að reyna og mistakast, líkt og ef um þróunarverkefni væri að ræða.
Í því samhengi megi til að mynda horfa sérstaklega til Svíþjóðar, sem hafi tekið risa stökk fram á við. Í dag séu til staðar mörg einkarekin kerfi sem styðja við hið opinbera og fjárfesta Svíar gríðarlega mikið í nýsköpun. Þá sé mikilvægt að leyfa fyrirtækjum að reyna og mistakast, líkt og ef um þróunarverkefni væri að ræða.
„Ég er ekki að segja að Ísland geti verið alveg á sama stað en við getum samt gert fullt. Af því að við erum svo fá þá er leiðinlegt að við séum með þessar hindranir því að við gætum prófað og mistekist hratt,“ segir Þorbjörg Helga en hún bendir á að þegar Kara Connect setti vinnustöð sérfræðinga í loftið 2017 hafi Svíar til að mynda verið komnir með lækna í fjarþjónustu.
„Það er til skammar að við séum ekki komin með það líka og ég ætla að fá að segja öllum þessum ráðherrum sem ég hef reynt að tala við í gegnum árin, að þetta skrifist á þá. Það er ekki nóg að vera spenntur fyrir breytingum, það þarf að fjárfesta í þeim og innleiða. Að sama skapi getur Landspítali ekki gert mikið í innleiðingu tækninýjunga ef hann fær ekki fjármuni til breytinga.“
Nauðsynlegt að hreinsa til í kerfinu
Spurð um hvort umræðan sem kemur reglulega upp um einkavæðingu spili inn í telur Þorbjörg Helga svo vera að vissu leyti, jafnvel þó að málið snúist ekki um einkavæðingu heldur einkarekstur til stuðnings hins opinbera. Með tækninni skapist ýmsir möguleikar, þar á meðal þegar kemur að forvörnum.
„Ég sakna þess svolítið að stjórnmálamenn, sérstaklega í svona breiðri ríkisstjórn, þori að ræða framtíð kerfis og það verði alltaf að tryggja ákveðna grunnþjónustu fyrir alla. Hver er hún og hvað er vont við það að þeir sem eigi tök á fari í eitthvað í forvarnaskyni eða borgi fyrir eitthvað sem þeir gera hvort eð er, þeir fara bara til útlanda,“ segir Þorbjörg Helga.
„Hér liggur hundurinn grafinn held ég vegna þess að hérna þorir enginn að segja, við ætlum ekki að gera þetta, þetta er ekki það sem Landspítalinn ætlar að gera, og svo framvegis. Rekstur Landspítalans að hluta til er háður alls konar litlum verkefnum vegna fjármögnunar sem svona skýr stefnumótun ætti að taka af skarið með svo við getum verið rosa beinskeytt í ákvörðunum.“
Í grunninn sé þó mikilvægt að hafa í huga að nýjar lausnir skapi ekki auka álag fyrir starfsfólk sem er þegar undir miklu álagi. Það hafi þó reynst raunin til að mynda þegar Heilsuveru, sem hið opinbera byggði sjálft, var komið á fót.
„Vegna lélegrar innleiðingar eru læknar nú á varðbergi fyrir nýjum lausnum. Fyrirtæki á markaði sem þarf að byggja lausn sem lifir og dafnar getur ekki byggt lausn sem er ekki vel innleidd og í takt við þarfir. Opinberum lausnum er hins vegar haldið á lífi með plástrum og viðbótum þó að allir séu sammála um að þetta séu löngu ónýt kerfi. Ég hef mjög mikla samúð með álaginu á kerfinu, ég held að okkur vanti virkilega mikið af nýju fólki inn í stéttina og við eigum að fókusera rosalega stíft á það. En það má samt ekki segja að það sé eina málið, við þurfum að hugsa um svo margt, og fjárfesta í lausnum til að létta á kerfinu,“ segir Þorbjörg Helga.
Jákvæðnu teiknin eru þó að Landspítalinn sé orðinn opnari fyrir nýjum lausnum en áður auk þess sem mikið fjármagn hefur verið tekið til hliðar fyrir nýja Landspítalann, sem þó er ekki að komast í gagnið nærri því strax. Þess vegna skipta nýsköpunarfyrirtækin máli.
„Þau eru bara að einfalda ferli, bæta aðgengi, stytta kannski tíma boðleiða, stytta tíma funda, þetta er ekki svona rosalega flókið. Þetta snýst um fólk.“
Vaxið og dafnað á áratug
Kara Connect var stofnað árið 2014 af Þorbjörgu Helgu og Hilmari Geir Eiðssyni og var upprunalega hugsað sem leið fyrir fagaðila til að tengjast skjólstæðingum sínum. Um þrjú þúsund sérfræðingar nýta sér vinnustöð Köru í dag, allt frá geðlæknum og sálfræðingum til markþjálfa og lögfræðinga.
Fyrirtækið stækkaði í faraldrinum og byrjaði árið 2023 að bjóða upp á Velferðartorg sem gerir vinnuveitendum kleift að veita starfsfólki sínu greiðan aðgang að sérhæfðri þjónustu en fyrsti viðskiptavinurinn var Landspítalinn. Á þriðja tug fyrirtækja nýta sér þessa þjónustu í dag, bæði hér á landi og á Írlandi, auk þess sem stefnt er á að komast inn á Bretlandsmarkað í ár.
Árið 2018 fjárfesti Crowberry Capital í fyrirtækinu og ári síðar lauk Kara Connect 160 milljóna króna fjármögnun með aðkomu Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og tveggja sænskra einkafjárfesta. Árið 2022 lauk fyrirtækið síðan sex milljóna evru fjármögnun, sem Iðunn framtakssjóður leiddi, til að byggja upp sölu- og markaðsteymi fyrir erlenda markaði.
Stuðningur við Grindvíkinga
Eitt nýjasta verkefni Köru Connect var að opna rafrænt stuðningstorg í samstarfi við almannavarnir og Rauða krossinn fyrir Grindvíkinga sem þurftu að flýja heimili sín vegna jarðhræringa, þeim að kostnaðarlausu.
Um viku eftir að hugmyndin kom upp innan teymis Köru var hún orðin að veruleika en sálfræðingar, fjölskylduráðgjafar, iðjuþjálfar og fleiri sérfræðingar gáfu tíma sinn og vinnu í verkefnið.