Sorpa bs. hagnaðist um 263 milljónir króna á síðasta ári og nærri þrefaldaði hagnað frá fyrra ári er hagnaður nam 91 milljón. Rekstrartekjur námu tæplega 7,8 milljörðum og jukust um 17% frá fyrra ári.

Eignir byggðasamlagsins námu 9,5 milljörðum í lok síðasta árs, skuldir 3,5 milljörðum og eigið fé 6 milljörðum.

Í skýrslu stjórnar kemur fram að á árinu 2024 hafi mikið verið hagrætt á rekstri Sorpu og markvisst unnið að því að einfalda reksturinn, m.a. með því að draga úr aðkeyptri vinnu og nýta starfsfólk félagsins betur og gefa þeim tækifæri á starfsþróun. Ávinningur af þessum hagræðingarverkefnum muni koma fram á fyrstu tveimur ársfjórðungum þessa árs.

Á þessu ári verði ný lán tekin hjá Lánasjóði sveitarfélaga til að fjármagna nýja endurvinnslustöð á Lambhaga og til að endurfjármagna eingreiðslulán sem tekið var hjá Íslandsbanka árið 2019. Reiknað sé með lækkandi vaxtakostnaði félagsins á næstu árum vegna vaxtabreytinga.

Fréttin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.