Sósíalistaflokkurinn var rekinn með 11,6 milljóna króna afgangi á árinu 2023, samkvæmt nýbirtum ársreikningi. Eignir flokksins námu 20 milljónum króna og eigið fé var um 19,5 milljónir króna í árslok 2023.

Tekjur flokksins námu 30 milljónum króna en þar af má rekja 24,5 milljónir til framlags frá ríkinu og 1,9 milljónir til framlags frá Reykjavíkurborg. Þá námu félagsgjöld 3,4 milljónum.

Fram kemur að félagið hafi veitt efnisveitunni Samstöðinni - sem Gunnar Smári Egilsson, stofnandi Sósíalistaflokksins, ritstýrir – 15,5 milljóna vaxtalaust lán í fyrra. Flokkurinn veitti Samstöðinni einnig 3,3 milljóna í lán árið 2022.

Samstöðin ehf., sem er í eigu félagasamtakanna Alþýðufélagsins, tapaði 24 milljónum króna í fyrra. Tekjur efnisveitunnar námu 11,2 milljónum og rekstrargjöld 34,9 milljónum.

Eignir Samstöðvarinnar námu 7,9 milljónum, skuldir voru um 34,4 milljónir (31,8 milljónir við tengda aðila) og eigið fé var neikvætt um 26,5 milljónir í lok síðasta árs.

Víkjandi lán sem breyta megi í hlutafé

Daginn sem greint var frá ársreikningi Samstöðvarinnar fyrir árið 2023 sagði Gunnar Smári í Facebook-færslu að róðurinn sé alls ekkert þungur hjá Samstöðinni, „ekki í þeirra merkingu að þar sé eitthvert ófjármagnað tap“.

Framlög áskrifenda efnisveitunnar fari inn í Alþýðufélagið sem leggi féð síðan inn sem víkjandi lán til Samstöðvarinnar „og sama má segja um stuðning frá Sósíalistaflokknum, hann kemur inn sem lán sem síðan má breyta í hlutafé“.

„Þetta er gert til þess að þessi framlög, bæði flokks og áskrifenda, verði að eign í Samstöðinni, að þau sem hafa lagt fé til uppbyggingar hennar eigi hana í framtíðinni.“