Meta, móðurfélag Facebook, sótti á dögunum stjórnanda í gervigreindarteymi Apple með starfssamningi sem hljóðar upp á meira en 200 milljónir dala, eða yfir 24 milljarða króna, yfir nokkurra ára tímabil samkvæmt heimildarmönnum Bloomberg.
Meta réði á dögunum Ruoming Pang sem stýrði gervigreindarlíkanateymi Apple. Síðarnefnda félagið gerði ekki tilraun til þess að jafna tilboð Meta þar sem launakjör Pang hefðu orðið meiri en hjá öllum öðrum stjórnendum Apple, að forstjóranum Tim Cook undanskildum.
Mark Zuckerberg, forstjóri og stofnandi Meta, hefur lagt ríka áherslu á að ráða mjög hæfa einstaklinga í „afburðagreindar-teymi“ sitt (e. superintelligence team) sem verður falið það verkefni að smíða gervigreindarkefi sem geta unnið verkefni jafnvel eða betur en einstaklingar.
Í umfjöllun Bloomberg segir að meðlimir teymisins séu með hvað hæstu laun sem finnast í nokkru starfi í atvinnulífinu, þar með talið forstjóralauna hjá stærstu bönkum heims. Aftur á móti sé stór hluti launakjaranna byggi á frammistöðutengdum mælikvörðum og háður því að umræddir einstaklingar vinni hjá félaginu í ákveðið mörg ár.
Launapakkinn fyrir starfsmenn teymisins felur í sér grunnlaun, ráðningarbónus og hlutabréf Í Meta. Hlutabréfaréttindin vega þyngst í launakjörum umræddra einstaklinga. Í þeim tilvikum þar sem einstaklingar eru sóttir frá öðrum gervigreindarfyrirtækjum, og falla þar með frá hlutabréfaréttindum hjá viðkomandi félögum, horfir Meta til þess að greiða hærri ráðningarbónus en ella.
Forstjóri OpenAI, Sam Altman, hélt því nýlega fram að Meta hefði boðið nokkrum starfsmönnum sínum starfssamninga með ráðningarbónusum upp á 100 milljónir dala eða meira, en tók þó fram að enginn hefði þegið tilboðinu hingað til.
Bloomberg greinir hins vegar frá því að Meta hafi tekist að ráða til sín fleiri en tíu manns frá OpenAi ásamt háttsettum vísindamönnum og verkfræðingum frá Anthropic, Google og öðrum sprotafyrirtækjum.
Meta tilkynnti í síðasta mánuði um 15 milljarða dala fjárfestingu í sprotafyrirtækinu Scale AI, sem starfar á sviði gagnamerkja. Meta eignaðist 49% hlut í fyrirtækinu og tryggði og réð auk þess einn stofnanda þess, Alexandr Wang.