Netöryggisfyrirtækið Varist hefur tryggt sér 975 milljónir króna í nýtt hlutafé.

Fyrirtækið hefur undanfarið þróað nýja lausn sem heitir Hybrid Analyzer en hún greinir nýja og óþekkta vírusa margfalt hraðar og ódýrar en núverandi lausnir á markaði. Fjármagnið gerir Varist kleift að setja aukinn kraft í áframhaldandi vöruþróun og efla sölu og markaðsinnviði.

Með hlutafjáraukningunni breikkaði fjárfestahópur Varist umtalsvert, en Eyrir Vöxtur og Kjölur eru stærstu nýju hluthafarnir. Fyrirtækjaráðgjöfin Arma Advisory var ráðgjafi í þessum viðskiptum.

Samhliða hlutafjáraukningunni var ákveðið að færa eignarhlut OK til hluthafa OK. Varist verður því ekki lengur dótturfélag OK. Fjöldi hluthafa er nú 20 og framtakssjóðurinn VEX er stærsti hluthafi félagsins í dag.

„Við grínuðumst með það að líklega væru þetta 4 erfiðustu mánuðir undanfarinna 10 ára, til að sækja nýtt fjármagn í vaxtartækifæri í upplýsingatækni. Ört vaxandi netöryggisfyrirtæki eru hins vegar meðal eftirsóttustu fjárfestingatækifæra í heiminum í dag, og er það ekki að undra.

Við stöndum frammi fyrir stóru vaxtartækifæri og þrátt fyrir erfiðar markaðsaðstæður gekk ótrúlega vel að sækja peninginn hér á Íslandi. Það dugði og við þurftum í raun ekki að leita lengra, þótt áhuginn hafi vissulega verið meiri,“ segir Hallgrímur Th. Björnsson, framkvæmdastjóri Varist.

Djúpar rætur á Íslandi

Lausn netöryggisfyrirtækisins Varist byggir á 30 ára gömlum grunni íslenska fyrirtækisins FRISK Software International, sem var leiðandi í vírusvörnum á heimsmarkaði upp úr 1990 sem kallaðist Lykla-Pétur á Íslandi og F-Prot erlendis. Lausnin þróaðist yfir í B2B lausn fyrir önnur upplýsingatæknifélög, en margir af helstu tæknirisum heims voru viðskiptavinir félagsins.

Alþjóðlega netöryggisfyrirtækið Cyren keypti FRISK árið 2012, en vírusvarnarsviðið var áfram sjálfstæð eining.

„Nokkrum árum seinna byggði móðurfélagið upp nýja vöru sem var mjög dýr í þróun. Á árunum á eftir varð fjármagnsumhverfið erfiðara, m.a. vegna Covid og innrásar Rússa í Úkraínu, sem leiddi til þess að móðurfélagið fór í greiðslustöðvun. Rekstur vírusvarnarhluta Cyren var þó ávallt sjálfbær,“ segir Hallgrímur.

Vorið 2023 keypti OK, ásamt fyrrverandi starfsfólki vírusvarnarhluta Cyren, hugverkaréttindi þessara lausna af þrotabúinu og hélt rekstri áfram undir merkjum Varist. Í dag starfa um 30 sérfræðingar hjá Varist með samanlagða 250 ára reynslu í geiranum.

Nánar er fjallað um Varist í Viðskiptablaðinu sem kom út í vikunni. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.