Bandaríska flugfélagið Southwest Airlines hyggst hætta að notast við eldsneytisvarnir þar sem slíkar varnir hafa að sögn félagsins ekki skilað tilætluðum árangri undanfarinn áratug og reynst of kostnaðarsamar.
Félagið er um þessar mundir í miklum umbreytingarfasa á viðskiptamódeli sínu og leitar allra leiða til að draga úr kostnaði og auka tekjur, t.d. með hinum ýmsu gjöldum og vildarþjónustuleiðum.
Óstöðugleiki á orkumarkaði hefur flækt stöðuna á eldsneytisvarnamarkaði enn frekar að sögn ráðgjafa flugfélagsins.
„Fyrir utan nokkur jákvæð ár hefur þetta ekki verið til hagsbóta fyrir fyrirtækið, síðustu 10 til 15 árin,“ sagði Bob Jordan, forstjóri félagsins, á fjárfestafundi í þar síðustu viku. Hann kom einnig inn á að verð á eldsneytisvarnargjöldum hafi að sama skapi hækkað.