Southwest, fjórða stærsta flugfélag Bandaríkjanna, tilkynnti í dag að það muni hætta með opið sætaval og byrja að úthluta sæti fyrir fram í takt við almenna venju í fluggeiranum.

Southwest, fjórða stærsta flugfélag Bandaríkjanna, tilkynnti í dag að það muni hætta með opið sætaval og byrja að úthluta sæti fyrir fram í takt við almenna venju í fluggeiranum.

Opið sætaval (e. open seating) felur í sér að farþegar hafa einfaldlega geta valið sæti þegar gengið er um borð. Þetta fyrirkomulag hefur einkennt Southwest sem var stofnað fyrir 53 árum síðan. Félagið áætlar að taka upp kerfi með úthlutuðum sætum á næsta ári.

Stjórnendur Southwest segja að ráðist sé í þessa breytingu eftir að kannanir gáfu til kynna að 80% viðskiptavina flugfélagsins kjósi fremur að fá úthlutuð sæti. Með úthlutuðum sætum getur flugfélagið einnig byrjað að rukka aukalega fyrir sæti með meira fótapláss.

Í umfjöllun Wall Street Journal segir að Southwest hefur glímt við ýmis vandamál að undanförnu og að rekstrarniðurstaða félagsins hafi verið lakari en hjá samkeppnisaðilum.

Þrátt fyrir mettekjur þá var hagnaður Southwest á öðrum ársfjórðungi 46% lægri en á sama tímabili í fyrra og nam 367 milljónum dala, samkvæmt árshlutauppgjöri sem félagið birti í morgun. Southwest sagðist hafa selt of marga flugmiða yfir sumarið of snemma og þar með misst af tekjum af flugmiðum sem pantaðir eru á síðustu stundu.

Hlutabréfaverð Southwest hefur fallið um meira en 5% í viðskiptum fyrir opnun markaða vestanhafs í dag.