Southwest Airlines aflýsti eða frestaði 13% af flugáætlun sinni síðastliðinn mánudag, eða sem nemur 582 flugferðum. Þar af var 160 flugferðum aflýst og 422 flugferðum frestað.

Flugfélagið hefur átt erfitt uppdráttar að undanförnu, en það aflýsti þúsundum flugferða á hverjum degi milli jóla og nýárs.

Félagið kenndi þar veðrinu um, en samgönguráðherrann Pete Buttigieg vildi þó meina að aflýstar flugferðir félagsins væru ekki vegna slæmra veðurskilyrða.

Í tilkynningu sem Southwest sendi frá sér í gær segist flugfélagið hafa þurft að aflýsa fleiri en 16,7 þúsund flugferðum frá 21. desember til 31. desember 2022. Félagið áætlar að röskun á flugáætlun sinni á þessu tímabili leiði til þess að hagnaður fyrir skatta á fjórða ársfjórðungi verði 725-825 milljónum dala, eða 104-119 milljörðum króna, minni en ella.