Bandaríski hlutabréfamarkaðurinn opnaði grænn í dag. Helstu hlutabréfavísitölur markaðarins hafa hækkað um 3-4% í fyrstu viðskiptum eftir töluverðar lækkanir síðustu þrjá viðskiptadaga.

Hlutabréfavísitalan S&P 500 hefur hækkað um hátt í 4% þegar fréttin er skrifuð en til samanburðar lækkaði hún um 10,7% síðustu þrjá viðskiptadaga.

Í umfjöllun Wall Street Journal segir að fjárfestar hafi tekið vel í merki um að bandarísk stjórnvöld gætu náð samkomulagi í tollamálum við nokkur stór viðskiptaríki, jafnvel eftir að stjórnvöld í Kína sögðust tilbúin í langvarandi deilur yfir tollum.

Scott Bessent, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, sagði að ríkisstjórn Trumps væri opin fyrir viðræðum um að draga úr tollum. Hann sagði að Bandaríkin gætu endað uppi með nokkra góða samninga. Ríkisstjórnin gaf til kynna að hún væri reiðbúin í slíkar viðræður við Japan, Ísrael og nokkur önnur lönd.

Japanska hlutabréfavísitalan Nikkei 225 hækkaði um 6% í morgun eftir að Bessent sagði að líklega yrði forgangsraðað viðræðum við Japan þar sem stjórnvöld þar í landi voru snögg að hafa samband.