Gengi bandarískra hlutabréfa er nú í methæðum, en S&P 500-vísitalan nam 6.118,51 stigum eftir lokun markaða í gær.
Samkvæmt gagnaveitu Bloomberg hefur væntur hagnaður sem hlutfall af hlutabréfaverði [e. forward earnings yield] S&P 500-vísitölunnar fallið niður í 3,9%, á sama tíma og ávöxtun tíu ára bandarískra ríkisskuldabréfa er 4,65%.
Því er áhættuálag bandarískra hlutabréfa [e. equity risk premium] orðið neikvætt og er á svipuðu reiki og þegar netbólan sprakk um aldamótin.
Financial Times greinir frá áhyggjum fjárfesta um að hlutabréf stóru tæknifyrirtækjanna sjö; Apple, Microsoft, Amazon, Alphabet, Meta, Nvidia og Tesla, séu e.tv. of hátt verðlögð.
Þó eru ekki allir greinendur á sama máli. Þannig er haft eftir greinanda hjá Goldman Sachs að þó að bandarísk hlutabréf séu hátt verðlögð í sögulegu samhengi þýði það ekki endilega að verðlagningin eigi ekki rétt á sér.
„Móðir allra bóla“
Greinendur benda á að há verðlagning bandarískra hlutabréfa, sem sumir hafa nefnt „móður allra bóla“ [e. mother of all bubbles], komi til vegna þess að sjóðstjórar og fjárfestar vilji ekki missa af lestinni, þrátt fyrir áhyggjuraddir um að ávöxtun hlutabréfa sé haldin uppi af örfáum tæknirisum.
Haft er eftir Ben Inker hjá eignastýringarfyrirtækinu GMO að fjárfestar virðist einfaldlega vilja eiga hlut í tæknirisunum jafnvel þó að áhættuálagið sé lítið sem ekkert.
Hið hefðbundna áhættuálag hlutabréfa hefur þó sætt gagnrýni í gegnum tíðina, m.a. fyrir að nota ávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa sem viðmið fyrir áhættulausa ávöxtun.
Þá hafa sérfræðingar á borð við Aswath Damodaran, prófessor við Stern-viðskiptaháskólann í New York, telja réttara að nota vænt sjóðstreymi og útborgunarhlutföll [e. payout ratios] til að reikna áhættuálagið.
Sé miðað við þann útreikning hafi áhættuálagið lækkað á síðustu tólf mánuðum og verið í sögulegu lágmarki en það sé þó „alls ekki neikvætt,“ að sögn Damodaran.