Markaðsaðilar eru vongóðir um að árið 2025 verði hagfellt fyrir fjárfesta á íslenskum hlutabréfamarkaði samkvæmt könnun Viðskiptablaðsins um horfur fyrir árið.

Könnunin var send á 276 markaðs- og greiningaraðila á fimmtudag síðastliðinn og bárust 121 svör sem jafngildir 44% svarhlutfalli.

Allir nema einn sem svöruðu könnuninni telja að OMXI GI, arðgreiðsluleiðrétt heildarvísitala aðalmarkaðar Kauphallarinnar, muni hækka á árinu.

Meirihluti svarenda á von á meira en 15% hækkun á árinu. Þannig er meðaltal spár markaðsaðilanna að vísitalan hækki um 16,7% á árinu.

Bjartsýni markaðsaðila er í takt við þróunina á markaðnum á síðustu mánuðum ársins 2024. OMXI GI vísitalan hækkaði um 14,7% á árinu 2024, þar af um 12,5% á fjórða ársfjórðungi.

Til samanburðar lækkaði vísitalan um tæpt prósentustig árið 2023 og um 12% árið 2022, eftir að hafa hækkað um heil 42% á árinu 2021 þegar stýrivextir höfðu verið með lægsta móti. Þá hækkaði vísitalan um 26% árið 2020 og 28% árið 2019.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta nálgast greinina í heild sinni hér og annað efni úr blaðinu hér.