Greiningardeild Landsbankans gerir ráð fyrir örlítilli lækkun á ársverðbólgu í desembermánuði.
Samkvæmt Hagsjá bankans fer verðbólga á ársgrundvelli úr 4,8% í 4,7%. Ef spá bankans gengur eftir mælist verðbólga 4,6% í janúar, 4,1% í febrúar og 3,9% í mars. Mun það vera örlítið hærri en fyrri spá bankans.
„Við eigum von á að verðlag þróist með nokkuð svipuðum hætti og síðast í desembermánuði, en mest áhrif til hækkunar á milli mánaða hafa flugfargjöld til útlanda og húsnæðisliðurinn,“ segir í Hagsjá bankans.
Í síðasta mánuði gerði Landsbankinn ráð fyrir því að reiknuð húsaleiga myndi lækka á milli mánaða en þvert á spá bankans hækkaði liðurinn nokkuð, eða um 0,9%.
„Við byggðum spána meðal annars á því að stór hluti leigusamninga sem teknir eru með í útreikningi Hagstofunnar eru vísitölutengdir með vísitölu neysluverðs til verðtryggingar, sem er vísitala neysluverðs með tveggja mánaða töf. Í nóvember var því septembermæling vísitölunnar notuð og sýndi hún 0,24% lækkun á milli mánaða,“ segir í Hagsjá bankans.
Að mati bankans verður þó óhjákvæmilega áfram einhver óvissa um hvernig þessi liður breytist á milli mánaða, að minnsta kosti þangað til komin er meiri reynsla á þróunina eftir breytingar á hvernig húsnæðisliðurinn er reiknaður.
Greiningardeildin spáir því að nú í desember og næstu mánuði muni reiknuð leiga hækka um 0,6% og hafa +0,12% áhrif á VNV, á milli mánaða sem er í takt við þróunina frá því að ný aðferðafræði var tekin upp.
„Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,35% í desember, lækki um 0,22% í janúar, hækki um 0,80% í febrúar og um 0,57% í mars. Gangi spáin eftir mælist verðbólga 4,7% í desember, 4,6% í janúar, 4,1% í febrúar og 3,9% í mars. Lækkun ársverðbólgu í febrúar skýrist að miklu leyti af hækkunum á sorphirðugjöldum í febrúar í ár sem detta út úr ársverðbólgunni og af því að í ár gengu janúarútsölurnar hraðar til baka en venjulega, þ.e. hækkunin í febrúar var meiri en venjulega en hækkunin í mars var minni en venjulega,“ segir í Hagsjá bankans.
Spáin er lítillega hærri en síðasta spá bankans en skýringin liggur meðal annars í hækkun á kolefnisgjaldi á eldsneyti, sem hækkar nokkuð umfram önnur gjöld á eldsneyti.
Bensínverð hækkar um 5% í janúar samkvæmt útreikningum bankans.
„Nýtt gjald á nikótínvörur um áramótin hefur einnig smávægileg áhrif. Þá var verðmæling okkar á raforku til heimila núna í desember hærri en við gerðum áður ráð fyrir. Þar að auki gerum við nú ráð fyrir aðeins meiri hækkun á reiknaðri húsaleigu.“