Landsbankinn spáir því að vísitala neysluverðs hækki um 0,9% í febrúar, 0,54% í mars og 0,53% í apríl. Gangi spáin eftir mun verðbólga mælast 6,1% í febrúar, 6,3% í mars og 5,1% í apríl.
Hagstofan greindi frá því í morgun að vísitala neysluverðs lækkaði á milli mánaða og mældist ársverðbólga 6,7% í janúar. Mun það vera mun lægri verðbólga en spár greiningardeilda bankanna gerði ráð fyrir.
Dregur úr verðbólguþrýstingi
Samkvæmt Hagsjá Landsbankans dró einnig úr verðbólguþrýstingi milli mánaða en allar kjarnavísitölurnar sem Hagstofan birtir lækkuðu í janúar, annan mánuðinn í röð.
Kjarnavísitölur verðbólgunnar segja til um þróun undirliggjandi verðbólgu og eru ágætis mælikvarði á það hvort verðbólga fari raunverulega hjaðnandi eða hvort þróun í hverjum mánuði skýrist aðallega af sveiflum í liðum sem eru almennt sveiflukenndir.
Flugfargjöld lækkuðu hressilega
„Það sem mest bar á milli okkar spár og vísitölunnar í janúar voru flugfargjöld til útlanda, rétt eins og í desember. Í desember hækkuðu þau einungis um 5,1% milli mánaða, en við höfðum spáð 19,4% hækkun,“ segir í Hagsjá bankans.
„Við gerðum ráð fyrir að verðið í janúar myndi bæta upp fyrir þessa litlu hækkun í desember og spáðum 2,3% hækkun. Þvert á okkar spá lækkuðu flugfargjöld í janúar um 11,4%. Minni verðþrýstingur í flugfargjöldum er í takt við minni innlenda eftirspurn,“ segir þar enn fremur.
Samkvæmt Hagsjánni hefur einkaneysla þó dregist saman og Íslendingar hafa fækkað utanlandsferðum.
„Í janúar í ár kostaði jafn mikið að fljúga til útlanda og í janúar 2022 og því ljóst að flug er hlutfallslega mun ódýrara en það var fyrir tveimur árum í samanburði við aðrar vörur og þjónustu.“