Lands­bankinn spáir því að vísi­tala neyslu­verðs hækki um 0,9% í febrúar, 0,54% í mars og 0,53% í apríl. Gangi spáin eftir mun verð­bólga mælast 6,1% í febrúar, 6,3% í mars og 5,1% í apríl.

Hag­stofan greindi frá því í morgun að vísi­tala neyslu­verðs lækkaði á milli mánaða og mældist árs­verð­bólga 6,7% í janúar. Mun það vera mun lægri verð­bólga en spár greiningar­deilda bankanna gerði ráð fyrir.

Dregur úr verðbólguþrýstingi

Sam­kvæmt Hag­s­já Lands­bankans dró einnig úr verð­bólgu­þrýstingi milli mánaða en allar kjarna­vísi­tölurnar sem Hag­stofan birtir lækkuðu í janúar, annan mánuðinn í röð.

Kjarna­vísi­tölur verð­bólgunnar segja til um þróun undir­liggjandi verð­bólgu og eru á­gætis mæli­kvarði á það hvort verð­bólga fari raun­veru­lega hjaðnandi eða hvort þróun í hverjum mánuði skýrist aðal­lega af sveiflum í liðum sem eru al­mennt sveiflu­kenndir.

Flug­far­gjöld lækkuðu hressi­lega

„Það sem mest bar á milli okkar spár og vísi­tölunnar í janúar voru flug­far­gjöld til út­landa, rétt eins og í desember. Í desember hækkuðu þau einungis um 5,1% milli mánaða, en við höfðum spáð 19,4% hækkun,“ segir í Hag­s­já bankans.

„Við gerðum ráð fyrir að verðið í janúar myndi bæta upp fyrir þessa litlu hækkun í desember og spáðum 2,3% hækkun. Þvert á okkar spá lækkuðu flug­far­gjöld í janúar um 11,4%. Minni verð­þrýstingur í flug­far­gjöldum er í takt við minni inn­lenda eftir­spurn,“ segir þar enn fremur.

Sam­kvæmt Hag­s­jánni hefur einka­neysla þó dregist saman og Ís­lendingar hafa fækkað utan­lands­ferðum.

„Í janúar í ár kostaði jafn mikið að fljúga til út­landa og í janúar 2022 og því ljóst að flug er hlut­falls­lega mun ó­dýrara en það var fyrir tveimur árum í saman­burði við aðrar vörur og þjónustu.“