Greiningarfyrirtækið Akkur spáir því að Icelandair hagnist um 18 milljónir dala, eða um 2,2 milljarða króna, eftir skatta á öðrum ársfjórðungi. Afkomuspáin gerir ráð fyrir að þetta verði besti annar ársfjórðungur hjá flugfélaginu frá árinu 2016.

Icelandair birtir uppgjör fyrir annan ársfjórðung eftir lokun Kauphallarinnar í dag.

Afkomuspáin gerir ráð fyrir að heildartekjur flugfélagsins verði 469 milljónir dala, eða ríflega 57,5 milljarðar króna, á fjórðungnum sem myndi samsvara 14,7% tekjuvexti frá sama tímabili í fyrra.

Þá gerir Akkur ráð fyrir að EBITDA-hagnaður Icelandair á öðrum fjórðungi aukist úr 41 milljón dala í 63 milljónir dala milli ára eða um helming.

Í umfjöllun á vef Akkurs segir að væntingar um auknar tekjur og bætta afkomu megi fyrst og fremst rekja til aukinna umsvifa og betri nýtingar á sama tíma og gert er ráð fyrir að kostnaður haldist nokkuð stöðugur.

Viðskiptablaðið fjallaði ítarlega um greiningu Akkurs um rekstur Icelandair í síðasta mánuði. Greiningarfyrirtækið gaf flugfélaginu þar markgengið (e. target price) 2,1 krónur á hlut í lok árs.