Íslenska sjávarútvegssýningin, IceFish 2024, stóð yfir dagana 18. - 20. september í Smáranum. Meðal sýnenda var nýsköpunar- og tæknifyrirtækið GreenFish.
„Helsti drifkraftur okkar er að sýna hvað Íslendingar geta gert. Það er mjög flott fyrir Ísland, sem hefur alltaf verið í fararbroddi meðal annarra þjóða í tækniþróun í sjávarútvegi, að vera fyrsta þjóðin til þess að nýta sér líkan sem gerir það mögulegt að taka gagnadrifnar ákvarðanir við mat á veiðisvæðum,“ segir Sveinn Sigurður Jóhannesson, framkvæmdastjóri og einn þriggja stofnenda félagsins.
Auk Sveins komu þeir Pétur Már Bernhöft, fjármála- og viðskiptaþróunarstjóri, og Sigurður Bjartmar Magnússon, tæknistjóri, að stofnun GreenFish. Við teymið bættist Hróbjartur Höskuldsson, sérfræðingur í gervigreind, og þá er Herluf Clausen, stjórnarmaður félagsins, þeim félögum til ráðgjafar.
Með því að taka tugi ára af gervitunglagögnum, ásamt gögnum úr íslenskum, dönskum og norskum sjávarútvegi og keyra saman inn í HPC-ofurtölvuna Julich í Þýskalandi, hefur GreenFish þróað líkan sem getur fundið mynstur hverrar tegundar fyrir sig og spáð fyrir um með góðri nákvæmni um staðsetningu, magn og gæði afla að lágmarki átta daga fram í tímann.
Spá fyrir um nýja verðmætasköpun
Loks hefur GreenFish, sem meðhöndlar gríðarlegt magn gagna bæði innanlands og erlendis, verið að þróa langtímaspár um hvaða tegundir gætu komið inn í landhelgi Íslands, eða farið úr henni, í framtíðinni vegna breytinga sem kerfið nemur á umhverfisþáttum eins og t.d. hlýnun sjávar.
„Kerfið getur sagt til um breytingar og hvar í hafinu þessar breytingar eru helst að eiga sér stað sem búa til kjöraðstæður fyrir nýja tegund eða aðstæður sem hrekja í burt núverandi tegundir. Slíkar spár gætu reynst ansi dýrmætar því þær gætu gert ráð fyrir nýrri verðmætasköpun eða tapi fyrir íslenskan sjávarútveg,“ segir Sveinn.

Nánar er fjallað um Greenfish í Viðskiptablaðinu sem kom út í vikunni.