Hagkerfið hefur kólnað verulega eftir kröftugt vaxtarskeið fyrstu árin eftir Covid-faraldurinn og nam hagvöxtur 0,5% á síðasta ári. Árin á undan var mikill hagvöxtur, eða 5% árið 2021, 9% 2022 og 5,6% árið 2023.
Greiningardeildir viðskiptabankanna þriggja hafa gefið út hagspár fyrir næstu þrjú ár. Hagspá Íslandsbanka kom út í lok janúar sl., en hagspár Arion banka og Landsbankans komu út fyrr í mánuðinum.
Bankarnir eru á sama máli um að hagkerfið muni nú fara hægt af stað á ný.
Með vindinn í fangið
Yfirskrift hagspár Arion banka, sem kynnt var í byrjun apríl, ber heitið „Með vindinn í fangið“.
Bankinn reiknar með 1,3% hagvexti á árinu 2025. Í stað útflutningsdrifins hagvaxtar, sem fyrri spár höfðu gert ráð fyrir, verði það innlend eftirspurn, með einkaneyslu í broddi fylkingar, sem ýti undir hagvöxt í ár. Útflutningshorfur hafi þannig versnað. Ekki nóg með að ferðaþjónustan eigi undir högg að sækja þá hafi staða alþjóðamála versnað sem gæti leitt til minni eftirspurnar eftir íslenskum útflutningi.
Engu að síður gerir bankinn ráð fyrir hóflegum útflutningsvexti í ár, „þar sem óhefðbundnari útflutningsgreinum, s.s. eldi og lyfjaframleiðslu, hefur vaxið fiskur um hrygg og álframleiðslan virðist laus við raforkuskerðingar – í bili“.
Að mati bankans snýr þó helsta áhættan af neikvæðum áhrifum viðskiptahindrana að sömu greinum, s.s. fiskeldi og lyfjaframleiðslu, sem eru í miklum vexti og áforma sókn á Bandaríkjamarkað. Bankinn gerir ráð fyrir 2,7% hagvexti árið 2026 og 2,9% árið 2027.
Hagstofan er aðeins bjartsýnni á hagvöxt ársins 2025 í sinni þjóðhagsspá sem birtist í lok mars sl. Þar er gert ráð fyrir 1,8% hagvexti í ár, 2,7% árið 2026 og 2,8% árið 2027.
Ágætis horfur en allt getur breyst
Yfirskrift hagspár Landsbankans, sem kom út í síðustu viku, ber heitið „Ágætis horfur en allt getur breyst“. Bankinn gerir ráð fyrir 1,4% hagvexti á árinu, 2,1% hagvexti árið 2026 og 2,3% árið 2027.
Í hagspá bankans segir að áhrif tolla Bandaríkjanna á efnahag Íslands séu enn verulega óljós. Ef tollastríð vindi upp á sig á heimsvísu megi búast við neikvæðum áhrifum á hagvöxt. Áhrifin á verðbólgu séu hins vegar óljósari.
Þegar kemur að hagvexti gæti tollastríð minnkað umsvif útflutningsgreinanna, þ.á m. ferðaþjónustu, enda ættu tollar í Bandaríkjunum að öðru óbreyttu að draga úr kaupmætti og þar með jafnvel úr áformum um utanlandsferðir. Aftur á móti gætu lægri tollar á íslenskan útflutning til Bandaríkjanna, samanborið við tolla á önnur lönd, leitt til betri samkeppnisstöðu einhverra útflutningsgreina Íslands á Bandaríkjamarkaði.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.