Bandarísk hlutabréf eru ólíkleg til að skila jafnhárri ávöxtun á næstu tíu árum og þau hafa gert undanfarinn áratug, að mati greinendum Goldman Sachs. Hann spáir því að fjárfestar muni í auknum mæli leita í aðra eignaflokka eins og skuldabréf til að fá hærri ávöxtun. Bloomberg greinir frá.

Teymi Goldman spáir því að S&P 500 vísitalan skili að jafnaði rétt yfir 3% árlegri ávöxtun að nafnvirði næstu tíu árin. Til samanburðar var árleg ávöxtun vísitölunnar um 13% undanfarin tíu ár og sögulegt meðaltal er í kringum 11%.

Greinendurnir telja jafnframt 72% líkur á því að hlutabréfavísitalan skili verri ávöxtun en ríkisskuldabréf og 33% líkur á því að hún fylgi ekki eftir verðbólgu fram til ársins 2034.

„Fjárfestar ættu að búa sig undir að næsta áratuginn verði ávöxtun af hlutabréfaeign þeirra við lægri mörkin á því bili sem þeir eru vanir,“ segir í blaði til viðskiptavina frá því á föstudaginn.

Í umfjöllun Bloomberg segir að fjárfestar hafi vanist miklum hækkunum á bandaríska hlutabréfamarkaðnum frá því eftir fjármálahrunið 2008. Skömmu eftir hrunið hafi lágir vextir ýtt undir hlutabréfaverð en á síðustu árum hafi sterkt efnahagsumhverfi og hagvaxtarhorfur stutt við markaðinn.

S&P 500 vísitalan hefur hækkað um 23% það sem af er ári sem rekja má að mestu leyti til hlutabréfa nokkurra tæknifyrirtækja, ekki síst Nvidia sem hefur hækkað um 194% í ár.