Landsbankinn spáir því að vísitala neysluverðs hækki um 0,61% á milli mánaða í apríl og að ársverðbólga hjaðni úr 6,8% í 6,1%. Vísitalan hækkaði um 0,8% á milli mánaða í mars, en bankinn hafði spáð 0,57% hækkun, þar sem meiri hækkun á reiknaðri húsaleigu skýrði muninn.
Þeir liðir sem munu hafa mest áhrif á hækkun vísitölunnar í apríl að mati bankans eru reiknuð húsaleiga, flugfargjöld til útlanda og matarkarfan. Bankinn býst jafnframt við því að verðbólgan verði óbreytt í maí en minnki í 5,9% í júní og verði síðan óbreytt í júlí.
Samkvæmt spánni hækkar kostnaður við að búa í eigin húsnæði um 1,1% milli mánaða. Þar af hækkar íbúðaverð um 0,6% og áhrif vaxtabreytinga verða um 0,5 prósentustig. Landsbankinn gerir ráð fyrir svipaðri breytingu í maí.
Í ár voru páskar í lok mars og hækkuðu því flugfargjöld um tæplega 10% í þeim mánuði. Gert er hins vegar ráð fyrir því að áhrif páskanna teygi sig yfir í apríl, þar sem páskarnir voru á mánaðamótunum og að flugfargjöld hækki um 10% í apríl.
Verð á mat og drykkjarvöru hækkaði um 0,4% í mars, nokkuð minna en í febrúar þegar hækkunin nam 0,7%. Landsbankinn gerir ráð fyrir svipuðum takti næstu mánuði og að í apríl hækki matarkarfan um 0,5% á milli mánaða.