Hægjast mun verulega á vexti olíueftirspurnar á heimsvísu, samkvæmt nýjustu spá Alþjóðlegu orkumálastofnunarinnar (IEA), sem telur tollastefnu Donalds Trump Bandaríkjaforseta hafa raskað væntingum um áframhaldandi efnahagsvöxt og þar með orkunotkun.
Stofnunin hefur lækkað spá sína um vöxt í eftirspurn um þriðjung, úr 1,03 milljónum tunna á dag niður í 730 þúsund tunnur. Jafnframt segir hún líklegt að frekari lækkanir verði gerðar ef tollastefna forsetans þróast í átt að auknum viðskiptahindrunum.
Þrátt fyrir að olía, gas og unnið jarðefnaeldsneyti hafi fengið undanþágu frá tollum Bandaríkjastjórnar hafa aðgerðirnar haft víðtæk áhrif á markaðinn. Áhyggjur af verðbólgu, samdrætti og víðtækum viðskiptadeilum hafa dregið olíuverð niður – og spilin í alþjóðahagkerfinu eru enn óráðnar.
„Staðan er viðkvæm og veruleg áhætta er til staðar,“ segir IEA í skýrslu sinni.
Verð á Brent-hráolíu, sem er alþjóðlegt viðmiðunarverð, féll í síðustu viku niður fyrir 60 dali á tunnu í fyrsta sinn síðan 2021.
Þetta gerðist áður en Trump tilkynnti að hluta nýrra tolla yrði frestað í 90 daga á meðan viðræður stæðu yfir. Í kjölfarið hækkaði olíuverð aftur og stendur í 65 dölum þegar þetta er skrifað.
Þrátt fyrir tímabundinn stöðugleika segir IEA að neikvæð áhrif tollanna á efnahagslífið séu það mikil að þau dragi úr eftirspurn eftir orku. Stofnunin hefur því einnig lækkað forsendur sínar um hagvöxt, sem liggja til grundvallar orkunotkunarspám.
„Lægri olíuverð draga að hluta úr áhrifum, en veikara hagkerfi vegur þyngra,“ segir í skýrslunni.
Í skýrslunni segir að ákvörðun átta aðildarríkja Opec+, undir forystu Sádi-Arabíu, um að auka framleiðslu olíu um 411 þúsund tunnur á dag frá og með næsta mánuði hafi einnig þrýst á verð.
Hins vegar bendir IEA á að áhrifin verði líklega minni en tölurnar gefa til kynna, þar sem mörg aðildarríki, þar á meðal Kasakstan, Sameinuðu arabísku furstadæmin og Írak, séu nú þegar að framleiða umfram kvóta.
Í fyrstu spá sinni fyrir árið 2026 gerir stofnunin ráð fyrir að árlegur vöxtur í eftirspurn verði enn minni og fari niður í 690 þúsund tunnur á dag.
Þar vega áhrif lakari efnahagslegra horfa þyngra en stuðningur frá lægra verði.