Greiningardeild Íslandsbanka spáir því að vísitala neysluverðs hækki um 0,4% í desembermánuði sem veldur því að ársverðbólga verði óbreytt í 4,8% í mánuðinum.
Að mati bankans vegur árviss hækkun flugfargjalda þyngst til hækkunar en áhrif verðhækkana matar- og drykkjarvöru ásamt reiknaðri húsaleigu eru skammt undan.
Hækkun flugfargjalda skýrist af aukinni eftirspurn í kringum jólin þegar margir eru á faraldsfæti en samkvæmt spá bankans mun lítil breyting verða þar á þetta árið og flugfargjöld til útlanda því hækka um 9% sem hefur 0,16% áhrif á vísitöluna í desember.
Spá bankans gerir ráð fyrir að lyf lækki í verði um 2,54% í mánuðinum en þau hafa lítið vægi í vísitöluna og áhrifin á verðbólgu því lítil.
Íslandsbanki gerir ráð fyrir því að áfram dragi úr framlagi húsnæðisliðar til verðbólgu.
Að mati greiningardeildarinnar verður 0,3% hækkun reiknaðrar húsaleigu sem mun hafa 0,05% áhrif á VNV í desember.
„Í nóvember mældist 0,9% hækkun í liðnum á meðan við spáðum 0,2% lækkun. Hækkunin í nóvember var á pari við mestu hækkun reiknaðrar húsaleigu eftir að ný matsaðferð var tekin í gagnið en hækkunin nam einnig 0,9% í ágúst. Enn sem komið er hafa mælingar með nýju aðferðinni ekki rofið 1% múrinn og á heildina litið dregið úr sveiflum í þessum lið milli mánaða,“ segir í spá bankans.
Íslandsbanki gerir jafnframt ráð fyrir hægari hjöðnun verðbólgu en áður var spáð og gerir spá bankans ráð fyrir því að verðbólga á ársgrundvelli verði einnig 4,8% í janúar.
Ástæða þess skýrist einna helst af hækkunum opinberra gjalda sem koma til í janúar.
Íslandsbanki er þó enn bjartsýnn á verðbólguþróun á næsta ári en eins og venjulega ríkir óvissa um ýmsar undirliggjandi hagstærðir. Til að mynda þarf gengi krónu að vera með stöðugra móti til að spáin gangi eftir.
Einnig má nefna áhrif af pólitíska sviðinu sem og í alþjóðamálum ásamt óvissu varðandi kjarasamninga fyrir þann hluta opinbera vinnumarkaðar sem enn á eftir að skrifa undir.
„Við teljum 12 mánaða takt verðbólgu eiga eftir að ganga hratt niður frá og með febrúar á næsta ári þegar stórir hækkunarmánuðir detta út úr mælingunni. Þegar lengra líður á árið spáum við því að ársverðbólga verði komin vel inn fyrir efri vikmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabankans og að hún verði komin nokkuð nálægt 2,5% markmiðinu um mitt næsta ár. Ýmsar hagstærðir hafa þróast með hagfelldum hætti síðastliðna mánuði en þar má einna helst nefna styrkingu krónu ásamt hægari haustmánuðum á leigu- og íbúðamarkaði sem vonandi skila sér í verðbólgumælingu desembermánaðar gangi spá okkar eftir.“