Hagfræðideild Landsbankans spáir því að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands muni halda stýrivöxtum óbreyttum í 9,25% á fundi sínum í næstu viku, þrátt fyrir að verðbólga hafi mælst talsvert undir spám í september og horfur séu á frekari hjöðnun næstu mánuði.

Hagfræðideild Landsbankans spáir því að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands muni halda stýrivöxtum óbreyttum í 9,25% á fundi sínum í næstu viku, þrátt fyrir að verðbólga hafi mælst talsvert undir spám í september og horfur séu á frekari hjöðnun næstu mánuði.

„Nefndin hefur stigið varlega til jarðar síðustu mánuði og haldið vöxtum óbreyttum í heilt ár. Í síðustu yfirlýsingu nefndarinnar er sérstaklega talað um „varkárni“ og greinilegt að Seðlabankanum er mikið í mun að hætta ekki á að missa aftur stjórn á verðbólguvæntingum.“

Í nýrri hagsjá Landsbankans segir einnig að greina hafi mátt harðan tón í orðum Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra á kynningu nýjustu fjármálastöðugleikaskýrslunnar á miðvikudaginn þar sem hann sagði að verðbólgan væri „að fara niður“ og að henni yrði „þrýst niður á hækkun raunvaxta“.

Raunstýrivextir lækkað um 0,9 prósentur milli funda

Hagfræðideild Landsbankans bendir á að peningastefnunefndin hafi haldið stýrivöxtum óbreyttum í 9,25% á síðustu sex fundum. Frá síðasta fundi nefndarinnar hafi verðbólga hjaðnað verulega, eða úr 6,3% í 5,4%.

„Raunstýrivextir miðað við liðna verðbólgu hafa því hækkað um 0,9 prósentustig á milli funda nefndarinnar […] Út frá liðinni verðbólgu eru raunstýrivextir nú 3,85%.“

Niðurfelling opinberra gjalda þensluhvetjandi

Hagfræðideild bankans segir að hafa beri í huga að hjöðnunin undanfarið skýrist að hluta til af niðurfellingu opinberra gjalda, þ.e. einstaka skólagjalda og gjalda vegna skólamáltíða.

„Þótt slík niðurfelling komi til lækkunar á vísitölu neysluverðs gerir hún það að verkum að almenningur hefur meira fé milli handanna og kann því að vera þensluhvetjandi til lengri tíma.“

Verðbólguhjöðnunin sé því ekki að öllu leyti til marks um minnkandi eftirspurnarþrýsting í hagkerfinu og líklegt sé að peningastefnunefndin líti til þess. Auk þess telji hagfræðideildin að ýmsir aðrir hagvísar bendi til „þó nokkurrar eftirspurnar í hagkerfinu“.

Kröftug kortavelta gefi til kynna að heimilin hafi enn svigrúm til neyslu og síaukin innlán heimila gefa til kynna að neyslan geti aukist áfram. Þá sé enn eftirspurnarþrýstingur á íbúðamarkaði og ekki farið að bera á verulega auknu atvinnuleysi.