Samkvæmt gagnagreiningu Evalute Pharma verða fjögur af tíu söluhæstu lyfjum ársins tengd meðferðum við offitu.
Gagnafyrirtækið gerir jafnframt ráð fyrir að alþjóðlegi líftæknilyfjamarkaðurinn muni vera í bataferli allt árið eftir dræma sölu í fyrra en The Guardian greinir frá.
Samkvæmt fyrirtækinu er gert ráð fyrir að um 70 ný lyf fái markaðsleyfi í ár sem mun skila um 82 milljarða dala tekjuaukningu fyrir lyfjageirann í heild.
Þessi vöxtur er aðallega knúinn áfram af framþróun í offitulyfjum og krabbameinsmeðferðum, en einnig eru nýjar meðferðir við slímseigjusjúkdómum og ónæmismeðferðir væntanlegar.
Í krabbameinsmeðferðum mun Keytruda-lyfið frá Merck, sem notað er til að meðhöndla ýmiss konar krabbamein, verða mest selda krabbameinslyfið í ár. Evaluate Pharma spáir að salan fari yfir 30 milljarða dala í ár.
Hins vegar mun incretin-flokkurinn leiða markaðinn í ár (Incretins eru hormón sem hjálpa til við að stjórna blóðsykursmagni og eru losuð eftir máltíðir).
Af þeim tíu lyfjum sem spáð er að verði söluhæst árið 2025 eru fjögur GLP-1-lyf. Semaglutide frá Novo Nordisk, sem selt er sem Ozempic og Wegovy, og tirzepatide frá Eli Lilly, sem selt er sem Mounjaro og Zepbound, eru á góðri leið með að skila yfir 70 milljörðum dala í samanlagða sölu árið 2025.
„Á síðasta ári varð ljóst að GLP-1 lyf eru einn áhrifamesti lyfjamekanismi sem nokkurn tíma hefur verið uppgötvaður, bæði fyrir sjúklinga og markaði. Incretin-geirinn á þessu ári mun einkennast af aukinni samningagerð, og lyfjageirinn hefur ekki efni á að missa af því sem líklega er áhrifamesti lyfjamekanisminn til þessa,“ segir Daniel Chancellor, varaforseti Norstella, móðurfélags Evaluate.
Þá er því einnig spáð að hlutafjárútboð og frumskráningar muni einkanna lyfjamarkaðinn í ár en flest lyfjafyrirtæki muni fara á markað í Bandaríkjunum þar sem evrópska markaðinn skortir sérhæfða fjárfesta, samkvæmt skýrslunni.
Einkafjárfestar eru fremur bjartsýnir fyrir árinu og verður áherslan á mótefnalyf, geislalyf, ónæmislyf og bólgulyf, ásamt GLP-1-lyfjum.
Þó að áform nýrrar ríkisstjórnar í Bandaríkjunum séu óljós, er líklegt að það verði fleiri samrunar og yfirtökur á árinu þar sem stjórnir stórra lyfjafyrirtækja eru undir þrýstingi til að tryggja langtímavöxt.
„Þessi iðnaður hefur tekið sinn tíma í að jafna sig eftir botnfar heimsfaraldursins síðustu árin. En með aukinni samningagerð, betra aðgengi að fjármagni og áframhaldandi sprengingu í vexti á sviði GLP-1-lyfja og annarra lykilsviða eru horfurnar bjartar fyrir árið 2025,“ segir Chancellor.