Samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofunnar verða íbúar á Íslandi 500 þúsund innan 15 ára og 605 þúsund árið 2074.
Hlutfall íbúa á vinnualdri (16 til 74 ára) mun lækka úr 74% árið 2024 í 70% árið 2074 samkvæmt miðgildi spárinnar. Eftir 2052 verður elsti aldurshópurinn (eldri en 65 ára) fjölmennari en sá yngsti (yngri en 20 ára) samkvæmt miðgildi spárinnar.
Miðaldur Íslendinga var 36 ár árið 2024 en Hagstofan gerir ráð fyrir að hann verði 50 ár árið 2074.
Mannfjöldaspáin gerir ráð fyrir að frjósemishlutfall verði 1,4 barn á hverja konu (13-55 ára) árið 2074 samkvæmt miðgildi spárinnar eða á bilinu 1,3 til 1,5 börn með 90% líkum.
Til samanburðar var meðalfrjósemishlutfall innan Evrópusambandsins 1,4 börn á hverja konu árið 2022.
Samkvæmt miðgildi spárinnar aukast lífslíkur kvenna við fæðingu og verða 89 ár árið 2074, samanborið við 84 ár árið 2023, og lífslíkur karla hækka úr 81 ári í 84 ár, þ.e. aukast um 0,1 ár fyrir hvert ár spárinnar.
Fjöldi aðfluttra verður meiri en fjöldi brottfluttra allt tímabilið, fyrst og fremst vegna búferlaflutninga erlendra ríkisborgara.
„Öldrun þjóðarinnar stafar af minnkandi frjósemi og auknum lífslíkum. Þessi þróun er þó hægari á Íslandi en í ríkjum ESB vegna ungs aldurs erlendra ríkisborgara sem flytjast til landsins og hás frjósemishlutfalls miðað við meðaltal innan sambandsins. Til samanburðar var miðaldur í ríkjum ESB 44 ár árið 2021 en gert er ráð fyrir að því gildi verði ekki náð á Íslandi fyrr en árið 2050.“