Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáir samdrætti hjá þriðjungi heimshagkerfisins í ár. Kristalina Georgieva, framkvæmdastjóri AGS, varar við því að árið 2023 verði meira krefjandi en síðustu tólf mánuðir.
Í viðtali við CBS sagði Georgieva að hagkerfi Bandaríkjanna, Evrópu og Kína væru öll að hægja á sér. Hún gerir jafnframt ráð fyrir samdrætti hjá helmingi aðildarþjóða Evrópusambandsins í ár.
AGS færði niður spá sína um heimshagvöxt í október síðastliðnum og vísaði til áhrifa stríðsins í Úkraínu ásamt verðbólguþrýstingi og hækkun stýrivaxta hjá helstu seðlabönkum heims.
Georgieva bætti við í viðtalinu að fjölgun Covid-smita í Kína muni hafa í för með sér minni hagvöxt í Kína ásamt því að draga úr heimshagvexti. Í fyrsta skipti í 40 ár eru taldar líkur á að hagvöxtur í Kína verði minni en heimshagvöxtur.
Í umfjöllun Financial Times segir að ummæli Georgieva gefi til kynna að AGS muni bráðlega færa niður hagspá sína enn frekar fyrir árið 2023. Sjóðurinn birtir yfirleitt uppfærðar sviðsmyndir á árlegum fundi Alþjóðaefnahagsráðsins í Davos í Sviss, sem er boðaður í lok mánaðarins.