Í nýrri þjóðhagsspá Íslandsbanka sem birt var í hádeginu er spáð töluverðri hækkun á íbúðaverði næstu þrjú árin. Greining Íslandsbanka spáir því að íbúðaverð hækki um 10,7% á þessu ári, 7% árið 2025 og 6,1% árið 2026.

Um er að ræða talsvert meiri hækkanir en gert var ráð fyrir í síðustu þjóðhagsspá Íslandsbanka frá því í maí. Bankinn segir að Grindavíkuráhrif á íbúðamarkaði hafi verið mun sterkari en vor var á.

„Verðhækkun á fasteignamarkaði á þessu ári ber greinileg merki Grindavíkuráhrifa. Uppkaup ríkisins á fasteignum í Grindavík hafa losað um fjármagn og smurt kaupkeðjur sem voru rétt farnar að ryðga, og þannig gert hjólum fasteignamarkaðar kleift að snúast hraðar þrátt fyrir háa vexti og ströng lánþegaskilyrði.“

Mynd tekin úr þjóðhagsspá Íslandsbanka.

Verðbólga yfir markmiði út spátímann

Greining Íslandsbanka spáir því að verðbólga, sem mældist 6,0% í ágúst, verði 5,1% í lok árs. Þá verði verðbólga að jafnaði 3,7% á næsta ári og 3,0% árið 2026.

„Samkvæmt okkar spá fer verðbólga ekki niður í markmið Seðlabankans á spátímanum en fer engu að síður inn fyrir vikmörk á öðrum fjórðungi næsta árs og nærri verðbólgumarkmiðinu á seinni helmingi spátímans.“

Íslandsbanki segir stærsta óvissuþáttinn til skemmri tíma vera fyrirhugaðar breytingar á skattlagningu ökutækja um áramótin, sem gætu haft veruleg áhrif á verðbólgumælingar yfir árið 2025.

„Breytingarnar gætu kippt verðbólgu rækilega niður í janúar, en útfærsla þeirra mun ráða úrslitum.“

Vaxtalækkunarferlið gæti hafist í nóvember

Bankinn segir að gangi spár hans um verðbólgu og efnahagsþróun eftir þá gæti vaxtalækkunarferli Seðlabankans hafist á síðasta vaxtaákvörðunardegi ársins, þann 20. nóvember næstkomandi. Stýrivextir Seðlabankans hafa verið óbreyttir í 9,25% í meira en ár.

Hins vegar megi ekki mikið út af bregða í þeim efnum svo vaxtalækkunarferlið tefjist ekki fram yfir næstu áramót.

„Þótt Seðlabankastjóri hafi gefið í skyn að vextir kynnu að lækka allmyndarlega þegar þar að kæmi þykir okkur bæði líklegra og skynsamlegra að farið verði varlega í sakirnar fyrst um sinn. Seigla í fjárfestingarstiginu og undirliggjandi spenna á íbúðamarkaði, sem og auðvitað þrálát verðbólga undanfarið, eru t.d. gildar ástæður til þess að slaka ekki of hratt á aðhaldinu.“

Íslandsbanki spáir því að stýrivextir verði komnir í 8,25% um mitt ár 2025, í 7,5% í lok næsta árs og í 5,5% undir lok spátímans „en það teljum við vera nærri jafnvægisvöxtum“.