Greining Íslandsbanka spáir því að peningastefnunefnd Seðlabankans hefji vaxtalækkunarferli í næstu viku með 0,25 prósenta lækkun stýrivaxta, úr 9,25% í 9,0%. Það séu þó nokkrar líkur á að vöxtum verði haldið óbreyttum fram í maí.

Greining Íslandsbanka spáir því að peningastefnunefnd Seðlabankans hefji vaxtalækkunarferli í næstu viku með 0,25 prósenta lækkun stýrivaxta, úr 9,25% í 9,0%. Það séu þó nokkrar líkur á að vöxtum verði haldið óbreyttum fram í maí.

Næsta vaxtaákvörðun nefndarinnar er boðuð á miðvikudaginn í næstu viku, 20. mars. Greining Íslandsbanka telur líku á að Seðlabankinn haldi vöxtum óbreyttum og bíði átekta fram í maí. Það myndu gera nefndinni kleift að fylgjast með verðbólguþróun, lyktir þeirra kjarasamninga sem enn er ólokið og áframhaldandi kólnun hagkerfisins.

„Okkar skoðun er hins vegar að ekki sé eftir neinu að bíða með lækkun vaxta eftir fremur hagfellda niðurstöðu kjarasamninga á stórum hluta hins almenna vinnumarkaðar, hjöðnun verðbólgu á flesta ef ekki alla kvarða síðustu mánuði og sífellt skýrari vísbendingar um kólnandi hagkerfi eftir stutt en snarpt þensluskeið,“ segir í grein á vef bankans.

Greining Íslandsbanka telur að skoðanir gætu orðið skiptar innan nefndarinnar líkt og raunin var í febrúar þegar Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, greiddi atkvæði gegn tillögu seðlabankastjóra um óbreytta vexti og lagði fram bókun um að hann hefði fremur viljað lækka vexti um 0,25 prósentur.

Spá 7,75% stýrivöxtum í árslok

Farið er ítarlega í greininni yfir þá þætti sem munu hafa áhrif á ákvörðun nefndarinnar í næstu viku. Greining bankans telur að ef vextir verða ekki lækkaðir í næstu viku þá sé næstlíklegasta sviðsmyndin að vaxtalækkunarferlið hefjist í maímánuði.

„Vafalítið mun Seðlabankinn fyrst í stað fara sér hægt í lækkun vaxta á meðan verðbólguvæntingar eru enn háar og framleiðsluslaki ekki orðinn umtalsverður.“

Greining bankans spáir því að stýrivextir gætu verið komnir niður fyrir 8% um næstu áramót og undir 6% að tveimur árum liðnum.

Nánar tiltekið er spáð því að stýrivextir verði lækkaðir um 1,5 prósentur í ár og standi í 7,75% í árslok. Þá verði stýrivextir lækkaðir um 2,25 prósentur til viðbótar og að stýrivextir Seðlabankans verði í kringum 5,5% í lok árs 2025.