Greiningardeildir Íslandsbanka og Landsbankans spá því að verðbólgan hjaðni talsvert milli mánaða og fari úr 4,6% í 4,2-4,3% í febrúar. Bankarnir spár því að verðbólgan fari inn fyrir 4% efri vikmörk Seðlabankans í mars.
Greining Íslandsbanka gerir ráð fyrir að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,9% í febrúar sem feli í sér að verðbólga hjaðni úr 4,6% í 4,2%. Hagfræðideild Landsbankans spáir því að vísitalan hækki um 0,98% á milli mánaða og að verðbólgan lækki niður í 4,3%.
Hin áætlaða hækkun er einkum rakin til þess að vetrarútsölur og lækkun flugfargjalda gangi til baka. Hagfræðideild Landsbankans nefnir einnig að hún geri ráð fyrir að reiknuð húsaleiga hækki í mánuðinum.
„Grunnáhrif vegna óvenju mikilla gjaldskrárhækkana á sama tíma í fyrra eru helsta ástæða þess hve mikið árstaktur verðbólgu gengur niður ef spáin gengur eftir,“ segir Greining Íslandsbanka.
Landsbankinn gerir ráð fyrir að verðbólga aukist í apríl
Íslandsbanki spáir því að verðbólgan muni mælast 3,8% í mars, 3,7% í apríl og 3,4% í maí. Hagfræðideild Landsbankans spáir því að verðbólgan verði 3,9% í mars, hækki svo í 4,1% í apríl en lækki svo í 3,7% í maí.
„Hjöðnun verðbólgu næstu mánuði er ekki síst vegna þess að stórir hækkunarmánuðir á reiknaðri húsaleigu detta út næstu mánuði. Lítils háttar hækkun á ársverðbólgu í apríl skýrist að hluta af að páskarnir falla nú á apríl með tilsvarandi hærri verði á flugfargjöldum til útlanda,“ segir í hagsjá Landsbankans.
Greining Íslandsbanka segir að nokkur óvissa sé um framhaldið varðandi niðurstöðu kjaraviðræðna hins opinbera við kennara og áhrif þeirra á vinnumarkað þegar fram í sækir. Einnig sé mögulegt tollastríð stór óvissuþáttur sem geti haft víðtæk áhrif á alheimsviðskipti og verðlagsþróun á heimsvísu.
Verðbólguspár bankanna
Landsbankinn |
4,3% |
3,9% |
4,1% |
3,7% |