Greiningardeild Íslandsbanka spáir því að ársverðbólga muni aukast lítillega í janúarmánuði eftir að hafa staðið óbreytt í desember.
Samkvæmt spá bankans verður þá verðbólga á ársgrundvelli komin inn fyrir efri vikmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabankans í mars.
„Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) standi óbreytt milli mánaða í janúar. Gangi spá okkar eftir mun ársverðbólga aukast lítillega og mælast 4,9%. Hækkanir opinberra gjalda gera vart við sig eins og venjan er í janúar en útsölur og lægri flugfargjöld vega sterklega á móti,” segir í spá bankans.
Hagstofan birtir vísitölu neysluverðs fyrir mánuðinn þann 30. janúar næstkomandi.
Samkvæmt spá Íslandsbanka munu undirliðir vísitölu neysluverðs, ferðir og flutningar, hækka um 0,5% í janúar og hafa 0,08% áhrif á VNV.
Hærra kolefnisgjald á eldsneyti veldur því að bensín- og olíur hækka um 3,4% í verði og hefur 0,11% áhrif á VNV.
„Flestir aðrir liðir sem flokkast til ferða og flutninga vega upp á við að flugfargjöldum undanskildum. Þar má helst nefna reiðhjól en um áramótin féllu niður sérsta VSK-ívilnanir sem sneru að kaupum rafmagns- og vetnisbifhjóla, léttra bifhjóla og reiðhjóla sem knúin eru með rafmagni sem og hefðbundinna reiðhjóla og rafmagnshlaupahjóla. Þessi aðgerð hefur samkvæmt okkar mælingum 0,09% áhrif til hækkunar VNV í mánuðinum.”
Minni hækkun á mat- og drykkjarvörum
Árviss lækkun flugfargjalda í janúar hefur áhrif til lækkunar en samkvæmt spá bankans munu flugfargjöld lækka um 9,9% (-0,2% áhrif á VNV) eftir hækkun upp á 7,92% (0,15% áhrif á VNV) í desember.
„Útsölur eftir jólin setja jafnan mark sitt á janúarmælingu VNV. Föt og skór lækka um 10,3% í verði (-0,39% áhrif á VNV) í mánuðinum samkvæmt okkar spá. Verð á fötum og skóm hefur þar með mest áhrif til lækkunar VNV að þessu sinni samkvæmt spánni. Næst mest áhrif hafa verðlækkanir húsgagna og heimilisbúnaðar en við spáum því að þau lækki um 4,6% í verði (-0,26% áhrif á VNV).”
Þá er gert ráð fyrir 0,3% hækkun á matar- og drykkjarvörum.
„Er það nokkru minni hækkun en margir áttu von á í byrjun árs miðað við nýlega fjölmiðlaumfjöllun um verðhækkanir í vændum. Hér spilar sterkari króna stórt hlutverk að okkar mati en við teljum styrkingu krónu á lokaþriðjungi síðasta árs hafa vegið að hluta á móti verðhækkunum aðfanga og innlendum kostnaðarhækkunum.”