Húsnæðis- og mannvirkjastofnun spáir umtalsverðum samdrætti í fjölda nýrra íbúða á milli áranna 2024 og 2025. Samtök iðnaðarins hafa sent frá sér greiningu sem fer yfir spá HMS sem segir meðal annars að 2.800 nýjar íbúðir muni koma inn á markaðinn í ár.
Ef spáin rætist er um að ræða nær þúsund íbúða fækkun frá því á árinu 2020 en þá var fjöldi fullbúinna íbúða ríflega 3.800.

„Þarfagreining HMS og húsnæðisáætlanir sveitarfélaga gera ráð fyrir að það þurfi rétt um 4.000 fullbúnar íbúðir inn á markaðinn í ár og sama fjölda næstu tvö ár. Miðað við spá stofnunarinnar um fullbúnar íbúðir þá verður byggt undir íbúðaþörf á þessum tíma sem nemur 4.360 íbúðum. Þá eykst ójafnvægið á milli fjölda fullbúinna íbúða og áætlaðrar þarfar eftir því sem líður á spátímann,“ segir í greiningunni.
Hækkun á kostnaði virðist hafa haft mikil áhrif en kostnaður við meðalíbúð hefur hækkað um tæplega 7 milljónir króna frá því í júlí í fyrra. Fjármagnskostnaður við íbúðir hefur einnig aukist um 3 milljónir króna vegna hækkunar stýrivaxta Seðlabankans og lengri meðalsölutíma.
Því er spáð að stýrivextir Seðlabankans muni þar að auki hækka upp í 9,5% síðar á þessu ári og í því samhengi benda Samtök iðnaðarins á könnun sem Outcome gerði í apríl. Þar kom fram að 88% stjórnenda sögðu að hækkandi fjármögnunarkostnaður myndi leiða til samdráttar í uppbyggingaráformum þeirra fyrirtækja á íbúðarhúsnæði.
Greiningin segir að miðað við spá HMS um framboð fullbúinna íbúða er ólíklegt að markmið stjórnvalda um að byggja 35 þúsund nýjar íbúðir á tímabilinu 2023-2032 náist, nema þau beiti sér með markvissum hætti og grípi á ákveðinn hátt inn í málið.

„Samtök iðnaðarins hafa um árabil talað fyrir því að framboð á húsnæði verði að vera í takti við þarfir almennings. Of fáar íbúðir voru byggðar á síðasta áratug. Það ójafnvægi sem verið hefur á húsnæðismarkaði er landsmönnum kostnaðarsamt og birtist meðal annars í verðbólgu og hærri vöxtum.“