Greiningardeild Kviku banka spáir því að vísitala neysluverðs hækki um 0,4% í desembermánuði sem þýðir að verðbólga á ársgrundvelli haldist óbreytt í 4,8%.
Samkvæmt spá bankans verður hlé á samfelldri hjöðnun verðbólgunnar alveg fram í febrúar en verðbólgan hefur hjaðnað hægt og bítandi síðan í júlí.
„Spáin hljóðar upp á nokkuð bratta hækkun, en hún liggur í kringum 68. prósenturöð (e. percentile) m.v. mælingar síðan 2010. Til samanburðar er algengasta gildi desembermælinga á tímabilinu um +0,3% og því er áhættan í spánni hugsanlega lítillega meira niður á við í þetta skipti,“ segir í spá bankans.
Kvika gerir ráð fyrir því að flugfargjöld og húsnæðis verði mest til hækkunar á milli mánaða á meðan aðrir liðir breytast minna.
Þrátt fyrir hækkun húsnæðisverðs mun húsnæðisliðurinn að mati bankans leggja til um kommu til hjöðnunar ársverðbólgunnar þar sem liðurinn hækkaði enn meira í fyrra.
Hækkun flugfargjalda í desembermánuði mun þá leggja til álíka mikið til hækkunar eftir óvenjulitla hækkun liðarins í fyrra.
Bráðabirgðaspá bankans gerir ráð fyrir að verðbólga muni hækka lítillega í janúar vegna hækkunar margvíslegra opinberra gjalda en Kvika gerir ráð fyrir um tæplega prósentustigs lækkun í febrúar og mars þar sem óvenjustórar hækkanir opinberra gjalda, flugfargjalda og húsnæðisliðarins detta út úr 12 mánaða mælingunni.
Gangi spá bankans eftir verður verðbólga innan vikmarka í marsmánuði.
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands kemur næst saman 5. febrúar og síðan aftur 19. mars.
„Það gæti hugsanlega slegið eitthvað á stemminguna fyrir öðru 50 punkta skrefi í febrúar ef verðbólgan gengur ekki niður mánuð frá mánuði fram að fundinum. Gangi spá okkar eftir verður verðbólga á fyrsta fjórðungi næsta árs um 4,4% að meðaltali en það væri aukinheldur lítillega yfir síðustu verðbólguspá Seðlabankans, sem hljóðaði upp á 4,1%. Þótt valið muni að líkindum aftur standa á milli 25 og 50 punkta í febrúar þykja okkur vaxandi líkur á 25 punkta skrefi þegar þar að kemur miðað við verðbólguhorfur, þótt enn sé allt of snemmt að slá nokkru föstu þar um.“