Leikarinn Kevin Spacey ber að greiða 31 milljón dala, eða sem nemur 4,2 milljörðum króna, til framleiðslufyrirtækisins á bak við House of Cards sjónvarpsþáttanna vegna kynferðisbrota sem gerðu það að verkum að honum var sagt upp fyrir lokaþáttaröð Netflix-þáttanna. Bloomberg greinir frá.
Hinn 63 ára gamli Spacey lék aðalhlutverkið í House of Cards allt fram að lokaþáttaröðinni. Framleiðslufyrirtækið MRC II Distribution Co. rak hann árið 2017 eftir að ásakanir um að hann hafi áreitt yngri menn á sínum ferli. Sjötta og síðasta sería þáttanna var því endurskrifuð og þáttunum fækkað úr þrettán í átta.
MRC taldi ósæmilega hegðun Spacey vera brot á samningi hans við fyrirtækið og krafðist skaðabóta fyrir gerðardómi. Eftir átta daga réttarhöld var Spacey dæmdur til að greiða MRC 29,5 milljónir dala í skaðabætur auk 1,5 milljónar dala í málskostnað.
Spacey mótmælti niðurstöðunni og helt því fram að hún væri byggð á ásökunum sem hefðu ekkert með vinnu hans fyrir MRC að gera. Hæstaréttardómari í Los Angeles, Mel Red Recana, hafnaði rökum Spacey og staðfesti úrskurð gerðardóms í dag.