Bændur á Spáni hafa nú bæst í hóp evrópskra bænda sem hafa efnt til mótmæla víðs vegar um álfuna. Líkt og aðrir bændur í Evrópu vilja þeir meiri sveigjanleika og aukið eftirlit með framleiðslu frá ríkjum utan ESB.

Mótmælendur hafa þegar lokað nokkrum þjóðvegum en stór mótmæli verða síðar í þessum mánuði í höfuðborginni Madrid.

Spænskir bændur fóru í gær út á götur landsins keyrandi dráttarvélar, flautandi og veifandi spænskum fánum og spjöldum. Þeir mótmæltu einnig í Katalóníu, suðurhluta Andalúsíu og Extremadura í vesturhluta landsins.

Bændur í Frakklandi, Belgíu, Hollandi, Ítalíu og öðrum löndum hafa undanfarið mótmælt reglugerðum sem eru hluti af sameiginlegri landbúnaðarstefnu ESB og hafa einnig kvartað undan háum eldsneytiskostnaði.

„Kostnaðurinn, þegar kemur að því að framleiða hveiti og bygg, er mjög hár. Þú þarft að borga fyrir áburð, skordýraeitur, eldsneyti – þetta er að drepa okkur. Við þurfum að borga mjög hátt verð fyrir vöru sem við seljum svo á lágu verði,“ segir spænski bóndinn Esteban.

Landbúnaðariðnaðurinn á Spáni hefur beint spjótum sínum að löndum eins og Marokkó og heldur því fram að útflytjendur þar þurfi ekki að lúta sömu umhverfis- og hreinlætisreglum og evrópskir framleiðendur, sem gera löndunum kleift að selja vörur sínar á ódýrara verði.