Þrátt fyrir mikinn fjölda ferðamanna til landsins undanfarna mánuði hefur krónan haldist nokkuð stöðug og flakkað á þröngu bili. Búast hefði mátt við töluverðri styrkingu í sumar líkt og oft áður, vegna fjölda ferðamanna, en af því hefur ekki orðið. Viðskiptablaðið ræddi við sérfræðing á gjaldeyrismarkaði sem taldi breytingar á reglum Seðlabankans um gjaldeyrisviðskipti um mitt ár í fyrra vera að hafa þau áhrif að styrking í gengi krónunnar hafi komið fram fyrr á árinu en oft áður.
Með nýju reglunum hafi spákaupmönnum verið hleypt inn á gjaldeyrismarkaðinn sem geti leitt af sér aukinn stöðugleika í gengi gjaldmiðilsins. Spákaupmenn selji krónuna þegar hún veikist en kaupi síðan þegar hún ætti að vera að styrkjast. Þá sé einnig fyrirséð um flæði töluverðs fjármagns til landsins þegar líða taki á árið, til að mynda vegna sölunnar á Mílu og vegna endurflokkunar íslenska markaðarins upp í flokk nýmarkaðsríkja hjá FTSE Russell vísitölunni.
Framvirk staða viðskiptabankanna þar sem íslenska krónan er í samningi á móti erlendum gjaldmiðli hefur aukist jafnt og þétt undanfarið og stóð í rúmum 170 milljörðum króna í maí á þessu ári. Það er töluverður viðsnúningur frá því við árslok 2020 þegar hrein framvirk staða viðskiptabankanna var nálægt núlli.
Um mitt ár 2021 var reglum um afleiðuviðskipti með íslensku krónuna breytt og eru þau nú án takmarkana. Fram að því þurfti að hafa einhver varnarrök fyrir slíkum viðskiptum, þ.e. sýna þurfti fram á að viðskiptin væru til þess fallin að verja ákveðið gjaldeyrismisvægi. Aftur á móti eru viðskiptunum settar skorður frá hlið bankanna því brúttó framvirk gjaldeyrisstaða þeirra má ekki fara yfir 50% af eiginfjárgrunni.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.