Skipasmíðafyrirtækið Navantia, sem er í eigu spænska ríkisins, er langt komið með 70 milljóna punda kaup, eða sem nemur yfir 12 milljörðum króna, á Harland & Wolff (H&W), skipasmíðafyrirtækinu sem byggði Titanic, í gegnum neyðarsamning sem breska ríkið styður við.

Heimildir SkyNews herma að breska ríkisstjórnin hyggist tilkynna fyrir jól og jafnvel í dag að Navantia sé að kaupa H&W og fjórar skipasmíðastöðvar félagsins í Bretlandi en viðræður þess efnis hafa staðið yfir í nokkra mánuði. Stjórn Navantia gerir áð fyrir að undirrita kaupsamninginn á næstu dögum.

H&W hefur átt í miklum fjárhagsvandræðum á síðustu misserum og fór móðurfélag þess í greiðsluskjól í haust. Pantanir hafa dregist verulega saman hjá félaginu.

Fram kemur að spænska félagið muni njóta góðs af bættum samningi vegna þriggja skipa sem verið er að smíða fyrir breska sjóherinn.

Í staðinn hefur Navantia skuldbundið sig til að ráðast ekki í hópuppsagnir hjá H&W yfir ákveðið tímabil, sem ekki var gefið upp. H&W er með yfir þúsund Breta í vinnu.

Heimildarmaður SkyNews innan ríkisstjórnarinnar lýsti neyðarsamningnum sem sigri fyrir Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, eftir að óvissu hafði ríkt í nokkra mánuði um framtíð fyrirtækisins.