Sparisjóður Þingeyinga skilaði 179 milljóna króna hagnaði eftir skatta á síðasta ári, samkvæmt upplýsingum sem kynntar voru á aðalfundi sjóðsins í lok apríl.
Í fréttatilkynningu frá Sparisjóðnum segir að rekstur sjóðsins hafi gengið vel á árinu og nam hagnaður fyrir skatta 226 milljónum króna.
Heildareignir sparisjóðsins námu 14,7 milljörðum króna um síðustu áramót og höfðu vaxið um 1.553 milljónir milli ára. Innlán viðskiptavina voru á sama tíma um 12,8 milljarðar króna, eigið fé nam 1,5 milljörðum, og lausafjárstaða er sögð sterk.
Nafninu breytt til að endurspegla víðara starfssvæði
Á fundinum var samþykkt að breyta nafni sjóðsins úr „Sparisjóði Suður-Þingeyinga“ í „Sparisjóð Þingeyinga“, þar sem nýja nafnið þótti betur endurspegla núverandi starfssvæði hans.
Í nýkjörinni stjórn sparisjóðsins sitja Bergþór Bjarnason, Dagbjört Jónsdóttir, Eiríkur H. Hauksson, Margrét Hólm Valsdóttir og Sigríður Jóhannesdóttir. Varamenn eru Elísabet Gunnarsdóttir og Pétur B. Árnason.
Styrkir til heilbrigðis- og velferðarmála
Einnig var tilkynnt á fundinum að Sparisjóður Þingeyinga veiti tvo samfélagslega styrki að upphæð 4 milljónir króna hvor. Annars vegar mun Velferðarsjóður Þingeyinga hljóta styrkinn og hins vegar verða heilsugæslustöðvar Heilbrigðisstofnunar Norðurlands (HSN) styrktar til kaupa á tækjabúnaði.
Með þessu undirstrikar Sparisjóður Þingeyinga áframhaldandi samfélagslega ábyrgð sína og þátttöku í uppbyggingu heilbrigðis- og velferðarþjónustu í heimabyggð.