Lággjaldaflugfélagið Wizz Air hefur rekið birgðastjórann Andras Sebok úr starfi sínu eftir að uppkomst um staðfestan grun um innherjasvik af hans hálfu. Simple Flying greinir frá þessu.

Svik Sebok voru á þann veg að á tímabilinu apríl 2019 til nóvember 2020 átti hann 114 sinnum viðskipti með - sem sagt kaup og sölu - hlutabréf í Wizz Air. Hann sleppti þó í öll skiptin að tilkynna viðskiptin til breska Fjármálaeftirlitsins, en Wizz Air er skráð í Kauphöllina í London og bar Sebok því, sem innherja, samkvæmt lögum að tilkynna um viðskiptin.

Wizz Air kom af fjöllum er breska Fjármálaeftirlitið greindi frá því að hafin væri rannsókn á viðskiptum birgðastjórans fyrrverandi. Segir flugfélagið að Sebok hafi ekki látið neinn innan raða Wizz Air vita af innherjaviðskiptunum.

Wizz Air kveðst hafa komið upp ströngum reglum í kringum viðskipti starfsmanna flugfélagsins með bréf félagsins. Í tilfelli Seboks hafi þessar reglur verið brotnar ítrekað. Kveðst flugfélagið vera boðið og búið til að veita breska Fjármálaeftirlitinu alla aðstoð við rannsókn málsins.