AI Green Cloud stefnir að því að byggja gervigreindargagnaver í Ölfusi, líkt og Viðskiptablaðið hefur fjallað um. Upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir að gagnaverið í Ölfusi yrði ræst á þriðja ársfjórðungi yfirstandandi árs. Því verkefni seinkar hins vegar um eitt ár, þar sem móðurfélagið AI Green Bytes er að klára byggingu gervigreindargagnavers í París, sem verður ræst í byrjun sumars.
Að sögn Kjartans Hrafns Kjartanssonar, framkvæmdastjóra AI Green Cloud, er verkefnið í París gríðarlega spennandi en þar er AI Green Bytes á lokametrunum við að reisa gervigreindargagnaver, sem verður notað við frumprófanir á þeirri tækni sem notuð verður gagnaverum félagsins (e. proof of concept).
Í gervigreindargagnaverum, sem notast við grafísk skjákort, er vélbúnaðurinn kældur með því að sökkva honum í tanka, sem eru fullir af óleiðandi, rafstýrðum vökva.
Kælivökvi úr plöntuolíu
AI Green Bytes hefur gert samning við Oleon, sem framleiðir og hefur einkaleyfi á vökvakælingu fyrir gervigreindargagnaver, sem nefnist Qloe. Gervigreindargagnaver notast flest við kælivökva sem gerður er úr olíu, sem unnin er úr gerviefnum en Kjartan segir að það sem sé einstakt við Qloe-vökvann sé að hann sé gerður úr plöntuolíum og því lífrænn.
„Með þessari nýju uppsetningu munum við draga úr orkunotkun við kælingu um allt að 90%, útrýma losun koltvísýrings og koma alfarið í veg fyrir vatnssóun,“ segir Kjartan. „Gervigreindargagnaverið í París verður opnað í júní og mun keyra háþróaðar gervigreindarvinnslur með áður óþekktri skilvirkni.“
Gagnaverið í París verður fyrsta vökvakælda gagnaver AI Green Bytes. Hver kælitankur mun hafa afkastagetu allt að 361 kW sem er langt umfram 30 til 40 kW getu hefðbundinna loftræstikerfa.

Stig Torvund, stjórnarformaður og forstjóri AI Green Bytes, segir að með þessar uppsetningu sé verið að stíga næsta skref í vökvakældum gagnaverum og setja ný viðmið í sjálfbærni greinarinnar. Stefnt er að því að nota sama búnað í gagnaverinu í Ölfusi.
Gagnaver AI Green Bytes nota vélbúnað frá NVIDIA og AMD, sem byggja á grafískum skjákortum (e. graphics processing unit – GPU). Þetta er tækni sem upphaflega var notuð í stafræna myndvinnslu fyrir tölvuleiki en er nú notuð m.a. í gagnavinnslu á breiðari grundvelli enda gríðarlega öflugur búnaður og miklu hraðvirkari en hefðbundnir örgjörvar (e. central processing unit – CPU).
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.